Dagskráin leit við hjá þeim viðbragðsaðilum sem enn voru að störfum í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi nú í morgun. Þegar blaðamann bar að garði voru síðustu ferðamenn að fara um borð í bíl sem flytja átti þá til Reykjavíkur þar sem þeir kæmust á sín hótel. Þá var gert ráð fyrir að fólkið hefði tækifæri á því að fá aðstoð við því áfalli sem það hafði orðið fyrir. Veður og færð er slæm og tefur það för fólksins, sem þrátt fyrir allt er heilt á húfi og enginn alvarlega slasaður eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.
Samtakmátturinn mikill og hópurinn samstilltur
Viðbragðsaðilar sumir höfðu verið að störfum í alla nótt, aðrir voru tiltölulega ný mættir á vaktina og enn aðrir náðu að loka augum í örfáar klukkustundir í nótt. . Þegar rætt var við þá aðila sem enn voru á vakt var á þeim að skilja að þrátt fyrir allt hefðu aðgerðir heppnast ágætlega. Björgunarsveitir víða að, allt frá Borgarfirði og austur í Rangárvallasýslur voru ræstar út, þá var fjöldahjálparstöð opnuð í Gullfosskaffi. Þar voru aðilar frá Lögreglu, heilbrigðisstarfólk frá HSU, þar á meðal læknir og hjúkrunarfólk ásamt viðbragðshópi frá fjöldahjálp Rauða krossins.
Þegar samtalið barst að skipulaginu voru viðmælendur sammála um að þeir sem kæmu að málum væru eins og vel smurð vél og starfið í svona aðgerðum færi fumlaust fram. Slagkrafturinn sem væri hægt að beita þegar allt kæmi til alls væri mikill. Það, er að mati blaðamanns, mikið stórvirki sem hér átti sér stað í afar krefjandi aðstæðum. Það þurfi og eigi að halda því til haga hve öflugt okkar viðbragð sé þegar allt kemur til alls. Þar virðist valinn maður í hverju horni og reynslan gríðarleg. Ólíkir aðilar vinna sem einn að því að sinna verkefninu sem liggur fyrir dyrum.
Um 300 manns tóku þátt í aðgerðum
Óhætt er að segja að umfang aðgerðanna hafi verið gríðarstórt. Um 300 manns tóku þátt í björgunaraðgerðum. Fimmtíu og sjö tæki voru notuð við aðgerðirnar við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður í snældu vitlausu veðri. Eitthvað af búnaði þurfti að skilja eftir uppfrá og bíða færis á að sækja hann, en eins og áður sagði voru aðstæður afar krefjandi fyrir búnað og mannskap.
Heim í hvíld er líklega næsta skref
Hjá þeim sem stóðu, og standa vaktina enn, er næsta skref að fara heim að hvílast. Aðspurð að því hvað verður um þá sjálfboðaliða sem eiga að mæta til hefðbundinnar vinnu eftir svona nótt segja þau að það sé sjaldan sem atvinnurekendur taki ekki tillit til svona aðstæðna. Það hafi þau í raun aldrei heyrt af. Þeir sem lengst hafi staðið á vaktinni ættu því að öllum líkindum að komast heim hvað á hverju og fá verðskuldaða hvíld.