-7.7 C
Selfoss

Á unglingárum las ég ástarsögur sem dugðu fyrir lífstíð

Vinsælar fréttir

Auður Ingibjörg Ottesen býr á Selfossi og er ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn. Höfundur bókarinnar 12 glæsilegir garðar og höfundur og ritstjóri í bókaflokknum Við ræktum sem fjallar um gróður og garðyrkju. Auður er smiður og garðyrkjufræðingur að mennt og hefur kennt á vinsælum garðyrkjutengdum námskeiðum síðan 2009. Hún er formaður Suðurlandsdeildar Félags kvenna í atvinnulífinu og meðstjórnandi í Vistræktarfélagi Íslands.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Bókina Um tímann og vatnið lagði ég frá mér rétt fyrir jól með söknuði. Andri Snær Magnason er svo góður. Bókin algerlega hnökralaus og snilld hvernig hann kemur boðskapnum til skila með sögu fjögurra kynslóða. Ég er spennt að lesa meira eftir Soffíu Bjarnadóttur, var að klára bókina hennar Hunangsveiði. Verðandi bók Michella Obama er ég að lesa núna. Fantafín, hispurslaus og einlæg. Hlakka til að leggjast á koddann í kvöld og halda áfram með hana. KaupThinking eftir Þórð Snæ Júlíusson hefur verið á náttborðinu í 2 ár og ég les hana í áföngum, áhugaverður lestur og það er líka nýútkomin bók Hauks Arnþórssonar, Um Alþingi. Sú bók er leiðinleg aflestrar en upplýsandi þannig að hún verður líka lesin með hléum.

Hvers konar bækur höfða til þín?

Sagnfræði og þjóðfræði heilla mig. Ég vil skilja gang mála og hef undanfarin ár lesið allt sem gefið hefur verið út á íslensku um sögu og átök í Arabalöndunum. Ég lagði á mig að lesa Rannsóknarskýrsluna sem kom út eftir bankahrunið, ekki skemmtilestur en fræðandi. Ég les vel skrifaðar ævisögur til að skilja tíðarandann og sagnfræðitengd ævintýri með boðskap. Sakamálasögur sem eru með áhugaverðu plotti höfða til mín og frásagnir af lífinu heilla mig líka. Fagbækur tek ég aldrei með mér upp í rúm, þær les ég sitjandi. Nær allar garðyrkjubækur sem ég les eru á Skandinavískum málum og veita mér innblástur.

Ertu alin upp við bóklestur?

Ég las fyrir son minn en minnist þess ekki að það hafi verið lesið fyrir okkur systkinin. Aftur á móti sagði faðir minn okkur hestasögur sem hann bjó til. Söguþráðurinn var alltaf sá sami, öll áttum við okkar hest með nafni, minn var Sokki. Sögurnar gengu út á það að við þurftum að bjarga hrossastóðinu í hús því það var að koma svo mikil þoka uppá Hellisheiði. Við og svo seinna barnabörnin tókum þátt í að spinna söguna og fyrir vikið var sagan aldrei nákvæmlega eins. Til eru upptökur af hestasögunum sem ég pikkaði upp og þykir mér mikið til þeirra koma. Ég var seinlæs og hafði lesið Dimmalimm, um Láka og Grimmsævintýri er ég var 10 ára. Á unglingárunum sótti ég bækur á bókasafnið í Hveragerði og las ástarsögur sem dugðu fyrir lífstíð. Foreldrar mínir voru í áskrift á bókum frá Almenna bókafélaginu og á æskuheimili mínu voru bækur á stássstað.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?

Flestar bækur les ég útafliggjandi, les fyrir svefn. Er með fjöldan allan af bókum á náttborðinu, sumar þeirra les ég í einum rykk og aðrar tek ég í áföngum. Á aðventunni á ég gæðastundir með jólabókunum umvafin ullarteppum í rökkrinu.

Einhverjir uppáhaldshöfundar sem þú vilt segja frá?

Uppáhaldshöfundur minn náði að skrifa Njálu án þess að geta nafns. Ég kolféll fyrir henni eftir að Guðmundur Daníelsson rithöfundur leiklas hana þegar ég var 16 ára. Uppáhalds erlendi höfundurinn minn er Siegfrid Lenz. Hef ekki tölu á því hve oft ég hef lesið í bókinni Þorpið yndislega sem er sprengskemmtileg í fáránleika sínum. Sá höfundur sem hefur haft mest áhrif á mig er Svava Jakobsdóttir fyrir smásögur sínar um stöðu konunnar í samfélaginu. Ritsystur hennar Ásta Sigurðardóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifa einnig snilldarlega um stöðu kvenna í karlægum heimi. Fyrir nokkrum árum keypti ég allar eldri bækur Laxness í bókabúðinni á Flateyri eftir vikt á 7000 krónur. Veturinn 2016 var tileinkaður Laxness. Hann er náttúrlega séní. Hann endurspeglaði tíðarandann líkt og verk Andra Snæs Magnasonar gera í dag. Ef ég væri spurð hvort ég elskaði einhverja bók þá væri svarið Momo eftir Mikael Ende. Hún var leiklesin fyrir mig og son minn af kærum vin fyrir 30 árum. Ég les Momo iðulega og glíma hans við tímaþjófana speglar svo vel hraða nútímans og ranglegt mati okkar á því sem skiptir máli. Svo er Finninn Arto Paasilinna snilldarrithöfundur sem fléttar sagnfræði og sálarangist inn í verk sín. Dýrlegt fjöldamorð og Ár hérans les ég ítrekað.

Að lokum Auður, hefur bók rænt þig svefni?

Margar bækur hafa rænt mig svefni og þá aðallega þegar textinn er hnökralaus, efnið grípandi og fléttur í sakamálasögum sem koma mér á óvart. Ekki síður vaki ég þegar ég fæ svar við veraldlegum og heimspekilegum spurningum mínum. En ég steinsofna fljótt við lestur bóka þar sem tikkað er í öll boxinn til að halda þræðinum uppi. Við lestur slíkra bóka fer ég ósjálfrátt að stytta þær í huganum og sem endar með því að ég legg þær frá mér.

Nýjar fréttir