Umhverfisnefnd ML og Bláskógaskóli á Laugarvatni hlutu nú í desember 250.000 kr samfélagsstyrk frá Landsbankanum fyrir verkefnið „Vistheimt á Langamel“. Það ætti að duga okkur til að kaupa áburð, fræ, plöntur og annað þarft til tveggja ára. Við erum mjög þakklát fyrir styrkinn, enda er verkefnið mjög þarft. Hér að neðan er hluti af styrkumsókninni, fyrir þá sem vilja fræðast meira um þetta verkefni:
Markmið að gera skólann eins umhverfisvænann og auðið er
Umhverfisnefnd Menntaskólans að Laugarvatni samanstendur af nemendum og starfsfólki skólans sem fundar einu sinni í mánuði með því markmiði að gera skólann og starf hans eins umhverfisvænt og auðið er. Verkefni nefndarinnar eru mörg, en eitt af þeim er að vinna að vistheimt á Langamel, svæði í hlíðum Laugarvatnsfjalls. Við höfum verið að vinna með Landvernd að vistheimt á svæðinu síðan árið 2016 og hafa nemendur sett upp tilraunareiti til að meta hvaða uppgræðsluaðferðir henta á svæðinu. Við höfum séð að svæðinu er að hraka og varð okkur sérstaklega um vorið 2018, þar sem mosabreiðurnar í kringum melinn voru orðnar svartar og dauðar á norðurhliðinni. Við sáum á einum vetri hvernig melurinn stækkaði og berjalandið í kring eyddist upp. Nefndin hafði samband við Skógrækt ríkisins og grunnskóla Bláskógabyggðar á Laugarvatni um að ráðast í stórtækar aðgerðir næstu árin. Nemendur okkar munu bera áburð, fræ og plöntur í svæðið og læra í leiðinni um mikilvægi uppgræðslu. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að þarna myndist skógur með gönguleiðum um Helgadalinn og að gamlir nemendur komi þangað og sjái ávöxt erfiðis síns.
Margir lagt hönd á plóginn
Síðastliðið vor fengum við 100.000 kr styrk frá sveitarfélaginu okkar til að byrja verkefnið. Við keyptum fyrir það 300 kg af áburði, 15 kg af grasblöndu til landgræðslu og 10 kg af hvítsmárafræjum. Skógræktin lagði til 600 birkiplöntur og grunnskólinn fékk gefins 300 birkiplöntur úr Yrkjusjóði. Við tókum fyrir hluta af svæðinu innan girðingar, þar sem svæðið er beitt fyrir utan girðinguna. Það svæði er norðanlega á melnum og ætti að þjóna sem fræbanki fyrir svæðið sem er utan girðingar. Þrátt fyrir mjög þurrt sumar var árangurinn mjög góður. Nemendur í jarðfræði mátu sem svo að nú væri þekja gróðurs á svæðinu komin í um 54%, miðað við um 11% áður.
Við ætlum að reyna að fá bændur á svæðinu til að koma og henda ónýtum rúllum á svæðið til að stöðva vindrof, svo við þyrftum að geta boðið þeim að borga eldsneyti. Nemendur munu safna birkifræi og sá yfir svæðið og næsta vor ætlum við að stækka aðgerðarsvæðið okkar. Við finnum fyrir miklum stuðningi í samfélaginu og fengum við hjálp bæjarbúa til að ljúka við aðgerðirnar í vor. Við sjáum fyrir okkur að nemendur grunnskólans vinni með svæðið á vorin, en þá eru menntskælingar önnum kafnir í prófalestri. Nemendur menntaskólans vinna svo á svæðinu á haustin í áfanganum JARÐ2AÍ5. Þetta verkefni mun standa næstu árin þar til svæðið er orðið sjálfbært.
Heiða Gehringer, kennari og formaður umhverfisnefndar ML.