-5.4 C
Selfoss

Sagnaþættir og hrakningasögur hafa alltaf heillað mig

Vinsælar fréttir

Hannes Stefánsson er fæddur Flóamaður. Eftir stúdentspróf frá ML 1970 og nám í íslensku og þýsku við HÍ tók við sveitabúskapur í Arabæ í Flóa. Að því loknu kennsluréttindanám og kennsla í þýsku og íslensku við FSu 1984 – 2017 auk íslenskukennslu fyrir útlendinga, bæði í FSu og á kvöldnámskeiðum. Leiðsögunám 1987 – 1988 og umsjón með nokkrum svæðisleiðsögunámskeiðum á Selfossi. Hannes hefur búið á Vogi í Ölfusi síðan 1988 og nýtur þar eftirlaunaára ásamt Helgu Jóhannesdóttur konu sinni. Helstu áhugamál hans eru allt sem viðkemur Íslandi og Íslendingum, bridgespilamennska og spurningaleikir.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa Þýska húsið eftir Arnald Indriðason á þýsku. Bækur Arnaldar les ég gjarnan í þýskum þýðingum eða hlusta á þær á þýskum diskum. Stíll hans er einfaldur, kostir bóka hans liggja frekar í söguefninu og þess vegna tapast ekki mikið þó að textinn sé á erlendu máli. Ég hef gaman að því að lesa um íslenskt efni á útlensku. Þess vegna gríp ég jafnhliða í nýja, þýska ferðamannabók um Ísland, vitandi þó að lítið verður um leiðsögustörf í sumar. Og inn á milli gríp ég í lesefni fyrir leiðsöguferð með eldri borgurum. Það er betra að mæta ekki ólesinn í það próf.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Allar bækur sem fylla upp í púsluspilið Ísland – land, þjóð og tunga. Hin ramma taug heimtar jarðtengingu. Sagnaþættir og hrakningasögur hafa alltaf heillað mig. Góðar ævisögur eru unaðslestur, ekki síst ef þær miðla glöggum þjóðlífslýsingum. Undir hamrastáli eftir séra Sigurjón Einarsson er gott dæmi. Skáldverk sæki ég helst í raunsæisdilkinn (ævintýraheimar Hringadrottins og Potters eru mér enn lokaðir). Það er magnað hvað vel unnar sögur geta opnað áhugaverða mannlífskima, gjarnan sögulegs eðlis (en ekki skrumskælingar eins og í skáldsögunni 60 kíló af sólskini).  Á unglingsárum hreifst ég til dæmis af sögu Pearl S. Buck, Gott land, sem gerist í kínverskri sveit.  Bækur Hosseini taka okkur með sér til Afganistan.  Vissulega framandi heimur, en það er svo gaman að taka undir með Tómasi Guðmundssyni um hjörtu mannanna. Ljóðabækur hafa alltaf höfðað til mín. Nú skal vitnað í Sigurjón í Forsæti sem sagði að það væri aldeilis andlega snauður maður sem ekki gæti hrifist af því sem andans jöfrar hefðu hugsað og fellt í meitluð ljóð.

Ertu alinn upp við lestur bókmennta?

Á mínu bernskuheimili var borin virðing fyrir bókum og öllu prentuðu máli. Kæmi ég sem gestur á nýtt heimili dróst ég að bókaskápnum. Ég varð snemma læs og las allt: Æskuna jafnt sem Frey, Samvinnuna og Tímann (verð að játa að stafli af Mogganum hjá Möggu í Rjómabúinu heillaði mig tífalt meira en söluvarningurinn). Minnisstæð eru mér litlu lestrarkverin úr barnaskólanum með afar fjölbreyttu efni. Barnabókaleysi bættist upp með því að eldri systkini mín fengu lánaðar bækur hjá skólafélögum.  Á jólum sló Árni í Hraunkoti út alla jólasveina.  Að læra kvæði varð heimilissport.  Pabbi og aðrir bændur vitnuðu oft í ljóð, það fannst manni flott.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Það er einfalt. Ég er sílesandi fréttamiðla, tímarit, allt sem uppfyllir grúsklestrarþörf kannski frekar en heilu bækurnar frá upphafi til enda. Bóklestur fyrir svefninn er heppilegt millistig milli vöku og draums.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Laxness stendur upp úr en hefur þann ókost að hann lætur aðra íslenska höfunda blikna. 15 ára gamall á Laugarvatni þekkti ég lítið til hans verka en Helgi Geirsson bókavörður sagði mér að prófa Sjálfstætt fólk. Ég hóf lesturinn og eftir nokkrar blaðsíður blasti við uppgötvun:  Þetta er svo miklu flottari texti en aðrir höfundar skrifa! Reyndar gat ég ekki fyrirgefið Laxness að láta Bjart flosna upp, það var ekki í samræmi við hugmyndafræði Tímans og Samvinnunnar. Ég dáist líka að kvenlýsingum í Sölku Völku, skrifuðum af karlmanni innan við þrítugt.  Vissulega eru fleiri íslenskir höfundar fantagóðir:  Ólafur Jóhann í smásögum sínum, Pétur Gunnarsson í Andrabókunum, Jakobína Sigurðardóttir í ýmsum verkum. Ég verð að játa að mér finnast nýjustu skáldsagnahöfundar íslenskir tæplega standa undir áhlöðnu hrósi. Þeir fara halloka í samkeppni við Sagnaþætti Guðna Jónssonar á náttborði mínu. Enda er ég búinn að koma mér upp brimbrjót gegn jólabókaflóðinu.  Af ljóðskáldum verð ég að nefna Jónas, Stephan G. , Guðmund Böðvarsson, Hannes Pétursson, Snorra Hjartarson og Þórarin Eldjárn.  Þeir eru alhliða gæðingar sem tjá hugðarefni sín með listatökum á íslenskri tungu. Norrænir höfundar hafa alltaf verið í afhaldi hjá mér, síðustu árin öðrum fremur Svíinn Frederick Backman. Margir hafa kynnst honum Ove, en endilega lesið þið líka Bresti og Fólk í angist.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já og öfugt, ég hef sofnað út frá bók. Góðar spennusögur (Alistair McLean) styttu einatt svefntímann. Krassandi draugasögur voru ekki hollar fyrir nóttina í rafmagnsleysi bernskunnar og ollu andvökum.

En að lokum Hannes, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Stuttar bækur.  ,, Words don´t come easy” var einu sinni sungið og mér er stirt um stef. En sennilega gæti ég klastrað saman barnabók með hrekkjóttri aðalpersónu.

 

___________________________________________

Lestrarhestur númer 95. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

Nýjar fréttir