2.8 C
Selfoss

Það er leikur að læra

Vinsælar fréttir

Nú eru börnin og starfsfólkið á leikskólanum Undralandi, Flúðum, komin í sumarfrí eftir langan og skrítinn vetur.

Starfið var með hefðbundnum hætti framan af en eins og alþjóð veit fór allt á hliðina í mars en við reyndum að haga seglum eftir vindi og teljum okkur hafa komist vel frá Covid-19 í vetur. Samhugur var í öllum að láta hlutina ganga og þar má sérstaklega nefna jákvæðni foreldra og starfsmanna. Eiga þeir þakkir skilið.

Leikskólinn kennir sig við útikennslu og eins erum við að stíga okkar fyrstu skref í Heilsueflandi leikskóla. Útivist er tvisvar á dag, við förum mikið í gönguferðir um nágrennið og nýtum okkur Kvenfélagsskóginn og Lækjargarðinn mikið. Heimsóknir á garðyrkjustöðvar eru líka á dagskrá hjá okkur.

Foreldrafélagið stendur vel við bakið á okkur, færir okkur gjafir og það er yfirleitt eitthvað sem við höfum óskað eftir. Það er ómetanlegur stuðningur. Eins hefur foreldrafélagið borgað heimsóknir frá leikhópum og hann Maximús Músikús kom í heimsókn til okkar í júní.

Þar sem ekki var hægt að hafa sýningu á verkum nemenda í vor ákváðum við að setja listaverk í glugga og eins eru listaverk fyrir utan leikskólann. Sýningin var opnuð 17. júní og vonum við að gestir og gangandi hafi haft gaman af.

Á vordögum erum við með vatnsviku, skógarviku og fjallgönguviku. Þetta vorið hefur verið frekar blautt þannig að dagskráin riðlaðist aðeins en við höfðum vel blauta vatnsviku, fórum í skóginn í þokkalegu veðri og Miðfell var síðan klifið 1. júlí. Við dáumst alltaf jafn mikið að börnunum á hverju ári, þau eru ótrúlega dugleg að komast upp á topp og svo auðvitað heim aftur.

Siðasta daginn var síðan hjóladagur, veðrið lék við okkur og allir fóru þreyttir en glaðir í sumarfrí.

Leikskólinn verður lokaður í fimm vikur, opnar aftur þriðjudaginn 11. ágúst.

Sumarkveðjur úr Hrunamannahreppi.

 

 

Nýjar fréttir