-6.6 C
Selfoss

Ungabörn og munnhirða

Vinsælar fréttir

Ólíkt fullorðinstönnum eiga flestar barnatennur takmarkaðan líftíma fyrir höndum. Fyrstu barnatennur falla yfirleitt um 5-6 ára aldur (+/-) en þær síðustu oftast um 10-12 ára (+/-). Nokkrir þurfa að treysta á einhverjar barnatennur mun lengur v.þ.a. þá hreinlega vantar fullorðinstönn. Það er mikilvægt að hlúa vel að barnatönnunum frá upphafi svo þær endist allan tímann sem þeim er ætlaður.

Tannburstun
Bursta skal með flúortannkremi frá fyrstu tönn. Hún kemur oftast á 5-11 mánuði (+/-). Notist við smágerða, mjúka bursta og reynið að bursta með hringlaga/sporöskjulaga hreyfingu. Fyrst um sinn þarf einungis örlítið tannkremsmagn: Misgóð viðmið eru t.d. nögl á litla fingri barnsins, fjórðungur af fremsta hluta litla fingurs barnsins, hrísgrjón eða lítil baun. Bursta skal tvisvar á dag, kvölds og morgna og EKKI skola munninn á eftir.

Flúortannkrem
Flúor er eina „vopnið“ okkar sem styrkir tennur. Flúorstyrkurinn skiptir mestu máli, ekki magnið af tannkremi. Hámarksstyrkur flúors í almennu tannkremi er 1400-1500ppm. Til eru barnatannkrem sem nota minni styrk (1000ppm), jafnvel enn minni styrk (≤600ppm, sem er gagnslaust). Það eru til barnatannkrem með 1450ppm styrk, þ.e. hámarksstyrk líkt og fullorðinstannkrem. Ekki kemur öllum tannlæknum saman um hverju skal mæla með í þessum efnum, þ.e. 1000ppm eða hámarksstyrk:
* Rökin fyrir minni styrkleika eru f.o.f. að börn fram að 5-6 ára geta ekki haldið tannkreminu í munninum og kyngja því einhverju. Þó flúorinn sé frábær fyrir yfirborð tanna er ekki æskilegt að innbyrða hann í miklu magni.
* Rökin fyrir hámarks styrkleika eru helst að það sem barnið kyngir er í snefilmagni og ekki talið hafa áhrif. Tannkrem á heldur ekki að vera það gott á bragðið (líkt og mörg barnatannkrem) að barnið sæki í það. Í sumum löndum í kringum okkur er flúor íbættur í neysluvörur, t.d. mjólk eða vatn. Á Íslandi höfum við ekkert slíkt.
* Sjálfur ráðlegg ég að nota frá upphafi tannkrem með hámarks flúorstyrk. Fullorðinstannkrem eða barnatannkrem með hámarksstyrk ef bragðið af hinu er of sterkt. Endilega ráðfærðu þig við þinn tannlækni.
* Eitt er á hreinu: Flúorlaust tannkrem er gagnslaust!

Tannþráður
Það er skynsamlegt að venja 2-3 ára börn á daglega tannþráðanotkun. Bæði til þess að minnka líkur á millitannaskemmdum og til að koma barninu strax upp á lagið með tannþráðanotkun. Fyrir börn mæli ég með tannþráðahöldurum. Gleymum ekki að við erum fyrirmyndirnar, ef vantar upp á tannþráðanotkun hjá foreldrunum er upplagt að nota tækifærið núna til að bæta úr því.

Brjóstagjöf, pelar og næring
Næring eftir burstun eykur líkur á tannskemmdum. Kornabörn þurfa þó næringuna sína á einu eða öðru formi til að dafna. En þegar fram í sækir minnkar vægi næturgjafanna. Að viðhalda næturgjöfum til langs tíma og að nota brjóstagjöf eða pela (mjólk/djús) til svæfinga/huggunar getur stóraukið tannskemmdahættuna. Vatn í pelann er í lagi. Athugið þó að séraðstæður geta krafist annars.

Snuð
Snuð geta verið himnasending fyrir órólegt barn. Mikil snuðnotkun hefur hins vegar áhrif á þróun og þroska tanna og gómhvelfingar. Almennt má segja að því fyrr sem snuðnotkun er hætt því betra. Ef venja á barn af snuði þarf samt að gæta þess að barnið fari ekki að sjúga þumalputtann í staðinn til huggunar.

Fyrsta tannlæknaheimsóknin
Ráðlegt er að barn komi fyrst til tannlæknis um 2-3 ára, sérstaklega ef þetta er fyrsta barn foreldranna. Það er ekki bara mikilvægt að barnið læri að koma til tannlæknis og byggja upp traust, foreldrarnir þurfa líka að læra að koma með barnið og fá mikilvæga, einstaklingsbundna fræðslu.

Sverrir Örn Hlöðversson
tannlæknir

Nýjar fréttir