Vera Ósk Valgarðsdóttir er alin upp í Hveragerði en fór til Frakklands strax efir stúdentspróf. Hún lauk síðar BA-prófi í frönsku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands. Vera kenndi frönsku við Fjölbrautaskóla Suðurlands í 28 ár áður en hún gerðist skólastjóri á Skagaströnd og gegndi því starfi í fimm ár. Núna er hún komin á eftirlaun en kennir örlítið við Grunnskólann í Hveragerði.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Þessa stundina er ég að byrja á bókinni Tíkin eftir Pilar Quintana í þýðingu Jón Halls Stefánssonar. Þetta er nýjasta bókin frá bókaklúbbnum Angústúru en ég fæ reglulega skemmtilegar sendingar frá þeim bókaklúbbi. Ein albesta bókin frá þeim er Litla land (Petit pays) eftir Gaël Faye, í snilldarþýðingu Rannveigar Sigurgeirsdóttur. Svo er ég líka með Kindle á náttborðinu hjá mér og er þessa stundina að lesa bókina Washington Black eftir Esi Edugyan. Mjög áhugaverð bók sem gerist á tímum þrælahalds.
En hvers konar bækur höfða helst til þín?
Eiginlega allar bækur höfða til mín. Ég les þó helst skáldsögur, bæði eftir íslenska höfunda sem erlenda, á frummáli helst, annars þýddar. Ég dett reyndar vandræðlega oft í krimma með reglulegu millibili. Sögulegar skáldsögur eru einnig í uppáhaldi eins og Híbýli vindanna og Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson. Svo má ekki gleyma ævisögunum en af þeim held ég mikið upp á bækurnar Úr ævi og starfi íslenskra kvenna eftir Björgu Einarsdóttur.
Ertu alin upp við bóklestur?
Ég las mikið sem barn. Markmiðið var að fá að minnsta kosti tíu bækur í jólagjöf. Ég gleymi aldrei þegar ég fór í sveit og uppgötvaði þar á fyrsta degi skáp í kjallaranum sem var fullur af bókum sem ég hafði ekki lesið. Mér leiddist ekkert í sveitinni það sumarið. Sem krakki voru uppáhaldsbækurnar mínar meðal annars allar Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton. Síðar á lífsleiðinni átti ég eftir að uppgötva bækur Astridar Lindgrens Bróðir minn Ljónshjarta og Ronja ræningjadóttir að ég tali nú ekki um allar Harry Potter bækurnar.
En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?
Árans prjónaskapurinn truflar svolítið lesturinn fyrir mér en mér finnst gott að lesa á kvöldin bækur af Kindlinum mínum og er þar með margar góðar í takinu skal ég segja þér. Ég er alltaf með einhverja bók á kantinum bæði í hefðbundnu bókarformi sem og í Kindle. Hljóðbækur hafa ekki heillað mig sérstaklega enn sem komið er.
Áttu þér einhvern uppáhalds höfund?
Vá! Erfið spurning! Ég skipti stöðugt um skoðun þegar kemur að uppáhalds einhverju. Núna í augnablikinu er það Roy Jacobsen. Ég bíð óþreyjufull eftir þriðju bókinni í trílógíunni um Ingrid Barroy. Fyrstu tvær heita Hin ósýnilegu og Hvítt haf. Dásamlegar bækur. Ég get ekki gert upp á milli íslenskra höfunda.
En hefur bók einhverntímann rænt þig svefni?
Já já já. Oft. Hver getur farið að sofa frá góðum krimma?
En að lokum Vera, hvernig sögur myndir þú skrifa ef þú værir skáld?
Ég yrði nú alveg dæmalaust lélegur rithöfundur. Ég vildi óska að ég gæti ort falleg ljóð. Nú bíð ég spennt eftir ljóðabók vinkonu minnar, Þórhildar Ólafsdóttur, Brot úr spegilflísum sem kemur út núna í haust hjá litlu bókaforlagi á Hvammstanga. Hlakka mikið til að fá þá bók í hendur.
_______________________________________________
Lestrarhestur númer 102. Umsjón Jón Özur Snorrason.