Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
Margir kunna æðruleysisbænina sem yfirleitt er sögð vera eftir bandaríska guðfræðinginn Reinhold Niebuhr og nýta sér hana í daglegri baráttu við ófrelsi fíknar, hverju nafni sem hún nefnist. En þessi kjarnyrta bæn er í raun stórkostlegt tæki til að takast á við erfiðleika daglegs lífs, hverju nafni sem þeir nefnast. Ég veit um fjölda fólks sem nýtir sér þessa bæn í daglegri glímu sinni við ýmsar þrautir, sorg og óréttlæti. Sumt sem við upplifum er einfaldlega þannig að við getum ekki breytt því, heldur verðum með einhverjum hætti að læra að lifa með því.
Þessa dagana, þegar þriðja bylgja Covid 19 farsóttarinnar herjar á okkur, skiptir svo miklu máli að einbeita sér að öllu því sem gleður hugann, huggar daprar sálir og hjálpar okkur að eygja von. Við erum öll orðin óskaplega leið á þessu ástandi, en það er samt ekki í boði að láta þetta pirra sig úr hófi fram. Það skiptir miklu heldur máli að vera jákvæð og bjartsýn og treysta því að ástandið gangi yfir. Og það vill svo til að við vitum að einmitt þessi erfiða farsótt mun ganga yfir með tímanum eins og svo margar sömu tegundar í aldanna rás. Vísindi nútímans, með sínar stórkostlegu framfarir frá degi til dags, munu finna bóluefni til þess að vinna bug á þessum sjúkdómi, líkt og svo mörgum öðrum sem áður hafa verið sigraðir í sögu mannsins.
Nú skiptir öllu að við höfum úthald og þrek til að bíða. Enn mikilvægara er að gleyma því ekki að heilsa okkar allra er jafn dýrmæt. Það getur enginn einn, eða hópar fólks leyft sér að ganga á rétt okkar til að halda heilsu. Þess vegna þurfum við öll að gæta að eigin smitvörnum, fylgja nákvæmlega öllum reglum sem „þríeykið“ setur okkur, því þau eru sérmenntuð á þessu sviði.
Við Íslendingar höfum verið lánsöm á síðustu árum og byggt upp frábært heilbrigðiskerfi. Við höfum ekki þurft að glíma við svona alvarlega farsótt í fjölda ára og erum ekki þjökuð af stríðsástandi eða óeirðum. Við höfum áður upplifað efnahagslegar kreppur af ýmsu tagi og unnið okkur út úr þeim í orðsins fyllstu merkingu, vegna þess að okkur auðnaðist þá að standa saman og sýna hvert öðru tillitssemi og virðingu.
Ekkert er eins mikilvægt nú og sú staðreynd að við eigum öll sama rétt til lífs og lífsviðurværis. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökumst af æðruleysi saman, á við þá erfiðu tíma sem framundan eru í vetur.
Við þurfum að hjálpast að við að stappa stálinu í atvinnurekendur og einyrkja sem sjá fram á hrun í tekjum. Styðja og styrkja öll þau sem hafa misst atvinnu eða horfa fram á tekjumissi af einhverjum ástæðum. Við gætum þurft að hjálpa til við umönnun sjúkra og bágstaddra, jafnvel þó við höfum kannski aldrei komið nálægt slíku. Sú staða getur komið upp sem við höfum aldrei ímyndað okkur að við ættum eftir að lenda í, en þarf alls ekki að þýða að við eigum að gefast upp. Nú þurfum við nefnilega að sýna sjálfum okkur og öllum sem með okkur lifa, að íslenska þjóðin hefur þróað með sér þrautsegju og þolgæði, ásamt því að hafa drukkið í sig kærleiksríkt siðferði sem gengur út á að hjálpa náunga í neyð. Við verðum að skilja ástæðu þess að loka þurfi krám og öldurhúsum, veitingastöðum og hótelum nú um stundir, því það er aðeins tímabundið. Við getum skemmt okkur saman síðar, þegar faraldurinn er yfirstaðinn.
Ef þú ert að glíma við kvíða, eða ert yfirkomin/n af þreytu vegna ástandsins, skaltu láta eftir þér að ræða við einhvern sem þú heldur að skilji þig. Í minni starfsstétt vinnur fjöldi fólks með afar góða færni og menntun á sviði sálgæslu sem gott er að tala við. Ég veit að þau eru öll af vilja gerð að hjálpa. Nýttu þér þau og öll önnur sem hafa hæfileika og færni til að láta þér líða betur þegar erfiðleikar mæta.
Elsku vinir. Með hjálpsemi, góðvild og samkennd munum við komast í gegnum erfiðleika líðandi stundar.
Þá getur verið gott að nota bænina hans Reinholds Niebuhr sem einskonar möntru. Bænin hans er lengri og þar stendur meðal annars þetta sem er líka svo frábært:
[Hjálpaðu mér] að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
og viðurkenna mótlæti sem friðarveg.
Haraldur M. Kristjánsson,
sóknarprestur í Vík.