Síðbúin orð vegna greinar Guðna Guðmundssonar á Þverlæk.
Í dagskránni 29. janúar sl. er grein sem Guðni á Þverlæk ritar um leitina að Njáluhöfundi. Guðni telur Pál Jónsson Skálholtsbiskup vera höfund Njálu og byggir hann það sérstaklega á draumi Sigurðar J. Árness. Þessum draumi Sigurðar er nákvæmlega lýst í bók minni “Leitin að Njáluhöfundi.” Þar er ennfremur fjallað um fjóra aðra drauma um þetta efni, auk miðilsfunda. Nú er það svo, að sumir draumar eru stórmerkir en aðrir miklu síðri, enda er ekki auðvelt að samræma til fulls niðurstöður allra þessara drauma og miðilsfundanna.
Það hafa meira en fimmtán manns verið tilnefndir sem ætlaðir Njáluhöfundar. Í bók minni tek ég til skoðunar og meðferðar tilgáturnar um þá alla. Niðurstöður mínar þar byggjast á nákvæmum athugunum á öllum meginþáttum Njálu og það með samanburði við aðrar heimildir og líkleg lífsviðhorf höfundarins.
Fyrir mörgum áratugum fannst mér þeir líklegir sem Njáluhöfundar, Páll Skálholtsbiskup og Loftur sonur hans. Með- og mótrök varðandi Pál sem Njáluhöfund eru of mörg til að ég tilgreini þau í einni blaðagrein en allt kemur það fram í nefndri bók minni. Niðurstaðan þar er sú, að Páll Jónsson hefur ekki ritað þá Brennu-Njáls sögu sem við þekkjum.
Guðni nefnir að hann telji að “höfundur” hafi fengið mann (eða menn) til að rita söguna. Þetta atriði er ekki fjarri þeirri tilgátu minni í bókinni, að hið sérstæða og einstaka málfar Njálu byggist á því að ritarinn sé þar að færa fastmótað talmál til ritaðs máls.
Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún.