Á fundi fræðslunefndar Árborgar í gær lagði Arna Ír Gunnarsdóttir formaður nefndarinnar fram tillögu um að leikskólar Árborgar yrðu lokaðir á milli jóla og nýárs árið 2020.
Tillagan var samþykkt samhljóða og verða leikskólar því lokaðir dagana 28.- 29. og 30. desember næstkomandi.
Bókun nefndarinnar er í heild sinni hér að neðan.
3.
2003156 – Leikskóladagatal 2020-2021
2) Formaður fræðslunefndar leggur fram eftirfarandi tillögu:
Í ljósi þess mikla álags sem verið hefur á leikskólastarfsfólk um langt skeið vegna heimsfaraldurs Covid-19 verði leikskólar Árborgar lokaðir dagana 28., 29. og 30. desember árið 2020 og starfsfólki leikskólanna gefið jólafrí þessa daga.
Það hefur mætt á mörgum í samfélaginu að bregðast við þeim síbreytilegu aðstæðum sem skapast hafa vegna Covid-19 og tilheyrandi ákvarðana um samkomutakmarkanir og sóttkvíar. Þessi verkefni hafa óvíða verið jafn krefjandi og á leikskólum. Leikskólar Árborgar hafa staðið sig með einstakri prýði svo eftir hefur verið tekið. Sú staða hefur meira að segja komið upp að helmingur starfsfólks hafi óvænt verið bundinn heima í sóttkví og hraðar hendur þurft til að greiða úr málum. Það er tímabært að verðlauna leikskólastarfsfólk og gefa því andrými nú um jólin til að endurnýja krafta sína í faðmi fjölskyldunnar. Við biðjum alla að sína þessu skilning, lokunin gildir aðeins á þessu ári og er ekki komin til að vera.
Það þarf samstillt átak samfélagsins til að komast í gegnum það mikla verkefni sem heimsfaraldurinn er. Um jólin er áríðandi að landsmenn hugi að eigin heilsu og annarra og safni orku fyrir lokasprettinn. Það er fátt sem gefur manni meira en að gefa öðrum.
Samþykkt samhljóða.