-7.3 C
Selfoss

Fáein orð í tengslum við Hrunamannahrepp

Vinsælar fréttir

Svo var mér það sagt, að síðla vetrar 1928 hafi maður einn komið fótgangand frá Miklholti í Mýrasýslu og austur í Hrunamannahrepp. Erindið var að skoða jörðina Syðra-Langholt er hlaut að verða laus til ábúðar á komandi vori. Sú skoðun leiddi til þess að maðurinn og hans kona hófu þar búskap um vorið, þá um fimmtug að aldri. Á þessum tíma voru flestir fátækir og var mér sagt að þessi maður hefði verið með peningaaleiguna í jakkavasanum, en ekki man ég hvort þetta var 2ja króna mynt eða 10 króna seðill. (Hafi minni mitt skolað þessu eitthvað til, þá óska ég eftir leiðréttingu).

Þessi maður var Sigurður Sigmundsson. Hann náði hátt í að verða níræður að aldri. Ég sá hann og hitti síðasta árið sem hann lifði og undraði mig þessi mikla gleðibirta sem var yfir ásjónu þessa aldna manns. Einhverju sinni hafði hann verið í sjóróðri, fallið fyrir borð og “drukknað.” Félögum hans tókst að ná honum og náðu að vekja hann frá dauða. Á meðan hann var “dauður” þá upplifði hann sig kominn inn í dyr “Himnaríkis,” en þar gagntók hann mesta sælutilfinning lífs hans og kunni hann því víst félögum sínum í fyrstu, takmarkaða þökk fyrir lífsvakninguna.

Meðal barna Sigurðar var Sigmundur sem flutti það sama vor með foreldrum sínum að Syðra-Langholti. Hann var mikill jarðræktar- og búmaður. Síðar hlóðust á hann trúnaðarstörf í sveitinni. Meðal hans barna var Jóhannes ungmennafélagsforingi, bóndi þar og í 33 ár kennari við Flúðaskóla og er hans getið hér síðar.

Ætli það hafi ekki verið á árinu 1934 sem dóttir Syðra-Langholtshjónanna og tengdasonur, þau Margrét Ólöf og Gunnlaugur, þá búandi vestur í Hnappadalssýslu koma í heimsókn að Syðra-Langholti. Í þeirri heimsókn var skroppið upp á Langholtsfjall, á þann stað, þaðan sem vel sést yfir. Þá bendir Gunnlaugur á bæina undir Miðfelli og segir “þarna vil ég búa.” Vorið 1935 losnaði vesturbærinn í Miðfelli og fluttu þessi ungu hjón þá þangað. Þau eru foreldrar hinna atgervismiklu Gunnlaugssona frá Miðfelli og urðu þeir frægir vegna íþróttaárangurs. Einn þeirra er Skúli sem síðar verður nefndur.

Röð atburða leiddu til þess að haustið 1967 hóf ég störf sem skólastjóri Hrunamanna að Flúðum. Skyldi ég gegna því starfi í einn vetur í fjarveru Hjartar Jónssonar. Á miðjum vetri var óskað eftir mér til áframhalds í því starfi. Þótt hugur minn stefndi til almenns kennarastarfs, þá tók ég þá ákvörðun, af praktískum ástæðum, að verða skólastjóri samtals í 10 ár, hvort sem það yrði þar eða í minni sýslu, Rangárvallasýslu.

Vera mín á Flúðum leiddi til þess að ég kynntist allvel Hrunamönnum og samfélagi þeirra. Þar bjuggu menn vel og voru stórhuga í ákvörðunum og framkvæmdum. Klúbbar og félög voru mörg og fólk duglegt við að hittast. Andi menningar sveif þar víða yfir. Ég er feginn að hafa átt þess kost að kynnast fólkinu þar. Skrifað gæti ég stuttorða lýsingu á fólki flestra heimilanna, en það yrði þó líklega efni í langan bókarkafla.

Það var að áliðu sumri 1972 að tvo gesti bar að garði mínum inni í Veiðivötnum, hvar ég var þá við störf. Þetta voru áðurnefndir Jóhannes Sigmundsson og Skúli Gunnlaugsson. Þarna var Skúli í umboði skólanefndar Hrunamannahrepps en Jóhannes sem kennari á eigin vegum, en hann hafði starfað langlengst þeirra allra við skólann. Erindi þeirra var að kanna hvort ég vildi ekki breyta þeirri ákvörðun minni að hætta sem skólastjóri á Flúðum. Ég man að þeir sögðu, að væri eitthvað sem ég vildi láta breyta í sambandi við skólann, þá ætti ég að láta það koma fram, ef það mætti verða til þess að ég drægi ákvörðun mína til baka. Ég sagði sem var, að engin slík ósk væri í huga mínum, tilfærsla mín austur yfir Þjórsá kæmi til af því, að “ævilangt yrði ég Rangæingur og ég væri í reynd að flytja heim.”

Síðastliðið haust (2019) var ég viðstaddur er fagnað var 90 ára afmæli Flúðaskóla Það var ánægjuleg stund. Þar var fólk á ýmsum aldri og sá ég þar að hinn fyrri menningar- og félagsblær hafði borist til næstu kynslóða. Á þeirri samkomu kom sterkt upp í huga minn, m.a. áðurnefnd heimsókn haustkveldið inn í Veiðivötnum og er ég þeim þakklátur fyrir það hugarfar þeirra, er þar lá að baki erindinu. Með þessu greinarkorni kveð ég þessa heiðursmenn. Þó væri það þess virði að nefna margt fleira fólk í sveitinni, bæði vegna starfa þeirra og mannkosta.

Jóhannes sá ég fyrst á Þjórsármóti þar sem hann keppti í stangarstökki. Hann átti gott með að umgangast fólk og var kennari í bestu röð og jafnvígur til kennslu á hinar ólíkustu námsgreinar. Aldrei varð ég þess var að nein “moldvörpustarfsemi” væri í gangi hjá kennurum skólans hvers í annars garð. Þar var samhyggja og samstarfsgleði ríkjandi. Hann var mikill félagsmálafrömuður og hlaut margþætta viðurkenningu fyrir slík störf. M.a. var hann formaður Héraðssambandsins Skarphéðins í heilan áratug og síðar heiðursformaður. Hann varð hins vegar ekki sá “Sigurður Greipsson” þeirra Hrunamanna sem ég hafði vænst að hann yrði, enda hefði það sennilega ekki orðið á neins manns færi. Jóhannes var maður fremur léttur í lund og gamansamur. Honum gat sárnað þvergirðingsháttur fólks enda lagði hann sjálfur hvarvetna gott til mála.

Skúli í Miðfelli hafði vítt áhugasvið og bjó yfir ýmiss konar þekkingu, m.a. á dulrænum málefnum. Hvarvetna, þ.m.t. á árlegum skólanefndarfundum, var eins og friður umhverfðist hann. Hann var maður hógvær, yfirvegaður, hlýr í viðmóti og að ásýnd gleðibjartur.

Það hefur glatt mig hversu vel því fólki hefur vegnað, sem á mínum starfstíma voru nemendur á Flúðum. Með ágætum hafa þau “haslað sér völl” á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Þó er það svo, að á áðurnefndum afmælisfagnaði sá ég og fann, að eitthvað ljúfari hugblær var nú yfir skólanum og starfi hans heldur en þegar ég “stóð þar við stýrið.”

Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún.

 

Nýjar fréttir