-7.3 C
Selfoss

Afturgengnar kindur á Rauðasandi?

Vinsælar fréttir

Hjá bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi er nú komin út bókin Kindasögur, 2. bindi, eftir Aðalstein Eyþórsson og Guðjón Ragnar Jónasson. Fyrra bindi Kindasagna kom út á síðasta ári og hlaut afbragðsgóðar viðtökur landsmanna. Höfundarnir ákváðu því að bæta við öðru bindi með fleiri frásögnum af afrekum og uppátækjum íslenskra kinda.

Í nýju bókinni er víða leitað fanga eins og í þeirri fyrri. Greint er frá afreki forystusauðs í Þistilfirði, fjallað um afturgengnar kindur á Rauðasandi, í Vopnafirði og víðar, rifjaðar upp útvarpsauglýsingar Sauðfjárverndarinnar á Selfossi og sagt frá manninum sem stóð á bak við þær. Þá er stilkað á sögu sauðfjárhalds innan borgarmarka Reykjavíkur og sagt frá stormasömum sam-skiptum reykvískra fjáreigenda við garðeigendur og borgaryfirvöld. Rætt er um áhrif eldgosa á sauðfé, meðal annars greint frá afleiðingum öskufalls frá Eyjafjallajökli í Fljótshlíðinni, og rif-jaðar upp sögur af strokukindum sem létu hvorki stórfljót né aðrar torfærur stöðva sin á leið sinni í forna heimahaga. Sagt er frá fjárskiptum og fjárböðun í Flóanum á síðustu öld og loks eru rifjuð upp kvæði íslenskra skálda þar sem kindur eru í aðalhlutverki. Með sögunum fljóta svo ýmsir fróðleiksmolar um líf og kjör fólks og fénaðar í landinu að fornu og nýju.

Í kaflanum „Bílda á Brúnastöðum“ er m.a. sagt frá fjárskiptunum um miðja síðustu öld og þar rifjar Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum í Flóa upp bernskuminningar um foystuána Bíldu og fleiri þingeyskar kindur sem komu  að Brúnastöðum, fjárböðun og fleira. Hér á eftir fer stuttur bútur úr kaflanum:

Á tímum niðurskurðarins [vegna mæðiveiki um 1950] bjuggu á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi í Flóa hjónin Ágúst Þorvaldsson, sem síðar sat lengi á Alþingi, og Ingveldur Ástgeirsdóttir með stóran barnaskara, en ættbogi þeirra situr jörðina enn í dag. Systkinin sem kennd eru við bæinn urðu sextán. Mæðiveikin barst aldrei að Brúnastöðum enda gekk fé þaðan ekki með kindum af öðrum bæjum. Hætt var að reka á afrétt Flóamanna árið 1938 og jörðin var varin fyrir samgangi fjár á þrjá vegu. Hvítá, sem rennur niður með Hestfjalli og aðskilur Flóa frá Grímsnesi, myndaði örugga vörn að norðan- og austanverðu en á suðurmörkum jarðarinnar var aðalskurður Flóaá-veitunnar á Brúnastaðaflötum til varnar.

Þrátt fyrir að Brúnastaðaféð væri ósjúkt og einangrað með þessum hætti varð niðurskurður ekki umflúinn. Árið 1950 var öllu fénu fargað en nýr fjárstofn kom haustið 1952 norðan úr Þing-eyjarsýslum. Lömbin að norðan voru flutt á vörubílum að Laugardælum þar sem þeim var skipt á milli bænda. Lambahópurinn sem kom að Brúnastöðum var um 40 gimbrar og heimilisfólkinu þótti vænt um að heyra á nýjan leik jarmað í gömlu torfhlöðnu fjárhúsunum sem stóðu spölkorn frá bænum.

Allar gimbrarnar fengu nöfn og nákvæmlega var skráð frá hvaða bónda og bæ fyrir norðan þær voru. Eitt Brúnastaðasystkina, Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, var þriggja ára gamall þegar nýja féð kom og hann man vel eftir norðlensku kindunum:

Ég man enn nöfn og útlit flestra kindanna sem komu að norðan. Tvær þeirra skáru sig nokkuð úr. Önnur þeirra var hún Bumba, lítil svört gimbur frá Hraunkoti í Aðaldal. Bumba var mannelsk og mikil afurðaær, varð þrettán vetra gömul. Hún kom oft heim til bæjar og bankaði á dyr með framlöppinni og bað um brauð úr litlum lófa. Bumba hefur trúlega verið heimaalningur í Hraunkoti ef marka má hegðun hennar. Hún var alltaf tvílembd en fyrst eftir burð var hún jafnan stygg og hélt sig frá okkur systkin-unum.

Hin kindin var Bílda frá Kraunastöðum í Aðaldal. Hún var svartbíldótt og af allt öðru sauðahúsi en hinar ærnar, grönn og háfætt, bar sig vel og horfði á okkur systkinin skarpleg á svip og augnatillitið var sívökult. Hún var kjörkuð kind en samt róleg og yfirveguð. Það fór ekkert á milli mála að hún var af forystukyni. Í minningunni bjó hún yfir alveg ótrúlegum hæfileikum. Hún fór fyrir hópnum og það var áhrifamikil sjón þegar hún leiddi ærnar af húsi og á beit eftir hádegi, allar í einni lest, og kom með þær til baka þegar tók að skyggja. Stundum voru ærnar hýstar á nóttunni og ef veður-útlitið var tvísýnt hélt Bílda sig innst í krónni en annars úti við dyr. Þegar fénu var hleypt út stökk hún oft upp á mæni fjárhúsanna, hnusaði greindarlega út í veðrið, rétt eins og hún væri alsjáandi völva. Það fór ekki á milli mála að Bílda var athugul og næm.

Margir Sunnlendingar muna eftir Jóni Konráðssyni sem lengi bjó á Selfossi og lét sér annt um velferð sauðfjár. Í kaflanum „Sauðfjárverndin“ er saga hans rakin og hér er gripið niður í upphaf kaflans:

Þeir sem eru komnir svo til vits og ára að þeir muni áttunda áratug síðustu aldar geta ef til vill rifjað upp fyrir sér allsérstæðar tilkynningar sem gjarnan voru lesnar í hádegisútvarpinu á þeim árum. Þetta voru skilaboð sem fólu í sér ýmiss konar leiðbeiningar og áskoranir um hirðingu og meðferð sauðfjár. Hér eru nokkur dæmi:

Bændur.

Hugsið vel um ærnar um sauðburðinn.

Ökumenn. Bílstjórar.

Varúð á vegum. Sauðkindin prýðir landið. Sauðféð hefur fætt og klætt þjóðina alla hennar daga. Akið varlega framhjá sauðfénu.

Smalamenn. Íslendingar.

Hundbeitið ekki kindur. Sýnið sauðfé ávallt nærgætni í allri umgengni. Setjið ykkur í spor kindarinnar. Sauðkindin er fíngerð og viðkvæm.

Þá var oft vikið að nauðsyn þess að útrýma tófu og öðrum vargi og fyrir kom að þetta væru almennari hvatningarorð um eitt og annað sem til framfara horfði fyrir land og þjóð:

Íslendingar.

Minkur, tófa og vargfugl hafa útrýmt söngfugli og vatnafiski. Því ber að útrýma þessum ófögnuði. Fleira mætti nefna.

Sauðfjárræktarmenn – Íslendingar.

Fornkappar og fjöldi fólks lifði mestmegnis á sauðfjárafurðum og var ekki mergsvikið í þol-raunum. Burt með sykurinn.

Sendandi þessara boða var „Sauðfjárverndin“ eins og skýrlega kom fram í lok hverrar orðsendingar. Flestir sem á hlýddu hafa vafalítið haldið að tilkynningarnar væru runnar undan rifjum hins opinbera – „Sauðfjárverndin“ hljómar ekki ósvipað og Gjaldheimtan eða Vegagerðin. Einhverjir þéttbýlisbúar hafa sjálfsagt fussað yfir því að hér væri landbúnaðarmafían að sóa skattpeningum almennings með því að setja ríkiskontór undir einhvern framsóknarhjassann. Á hinn bóginn er líklegt að sveitamenn út um land hafi stundum orðið hvumsa við að útvarpið væri að segja þeim fyrir verkum um hluti sem þeir þóttust bera fullt skynbragð á og vel það. En í sveitum Árnessýslu, einkum í Flóanum, voru þó margir sem vissu betur hvernig á Sauðfjárverndinni stóð. Hún var nefnilega hvorki stofnun né félag. Sauðfjárverndin var bara einn gamall maður á Selfossi sem varði ellilaununum sínum í þessar útvarpstilkynningar. Hann hét Jón Konráðsson og hann var ekki einu sinni framsóknarmaður.

Nokkru síðar í kaflanum segir:

Árið 1944 venti Jón sínu kvæði í kross, sagði upp kennarastöðunni [í Villingaholtshreppi] og settist að á Selfossi þar sem hann gerðist skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Árnesinga. Þar lét hann svo af störfum árið 1951. En Jón var þó ekki með öllu af baki dottinn, hann tók upp þráðinn í einkakennslu barna, fékk sér kálgarð og lét til sín taka í pólitík. Hann hafði sýnt í verki að hann var bæði ungmennafélagsmaður og samvinnumaður og kannski hefði þótt rökrétt að hann væri þá líka framsóknarmaður, en sú var ekki raunin. Jón Konráðsson var jafnaðarmaður og fylgdi Alþýðuflokknum að málum, starfaði í Alþýðuflokksfélaginu á Selfossi og var þar í stjórn um tíma. Þetta þótti ekki síður sérkennilegt en kerruaksturinn í Villingaholtshreppi, að sveitamaður, sem í ofanálag var handgenginn bæði ungmennafélögum og kaupfélagi, skyldi svo vera krati. Alþýðu-flokkurinn naut ekki mikillar hylli í sveitum Suðurlands á sjötta og sjöunda áratugnum. Í alþingis-kosningum fékk hann gjarnan í kringum 9% atkvæða í kjördæminu og engan þingmann kjörinn. Margir sveitamenn töldu flokkinn beinlínis andsnúinn bændum og landbúnaði. En Jón Konráðsson lét ekki segja sér fyrir verkum í þessum efnum fremur en öðrum.

Jón var ekki alltaf heilsuhraustur og árið 1964 veiktist hann alvarlega, „fékk vírus í höfuðið“ eins og hann orðaði það sjálfur. Honum var lítið gefið um lækna og meinilla við að taka meðul en í þetta skipti varð hann þó að leggjast inn á spítala. Það er mörgum Sunnlendingum nær-tækt ef syrtir í álinn að heita á Strandarkirkju í Selvogi að leggja henni eitthvað til ef úr rætist. En ekki var það Jóni Konráðssyni efst í huga. Þess í stað strengdi hann þess heit, þar sem hann lá sár-þjáður á sjúkrahúsinu á Selfossi, að helga sauðkindinni líf sitt ef hann kæmist einhvern tíma til heilsu á ný. Það var upphaf Sauðfjárverndarinnar. Og viti menn, Jón hresstist.

 

Fyrri greinJólahugleiðing
Næsta greinJólakveðja

Nýjar fréttir