-7.1 C
Selfoss

Hvað hefur árið 2020 kennt mér?

Vinsælar fréttir

Nú er að líða að lokum þessa skringilega árs, þegar ég lít til baka og fer yfir árið var það viðburðaríkt þar sem ég kom víða við, þrátt fyrir stóran hluta ársins sem ég hef eytt heima hjá mér, þar má „þakka“ þéttskipuðum janúar og febrúar. Það er mjög auðvelt að strika bara yfir árið 2020 út af æji þú veist, ég hef hins vegar tekið þá ákvörðun að skoða það jákvæða sem árið 2020 hefur gefið mér. Árið kenndi mér að sleppa tökunum og hægja á mér og velja vel hvað ég tek mér fyrir hendur.

Í því félagsstarfi sem ég tek þátt í höfum við sannarlega fengið áskoranir að horfa út fyrir kassann og finna nýjar leiðir til að halda lífi í félagsstarfinu, í stað Grímsævintýra og okkar árlegu Tombólu á Borg hjá Kvenfélagi Grímsneshrepps gengum við Sólheimahringinn og söfnuðum áheitum. Sá viðburður heppnaðist einstaklega vel og fleiri kvenfélög tóku upp ýmis áheitaverkefni. Í starfi FKA, sem snýst að miklu leiti um tengslamyndun og hittinga, höfum við nýtt okkur tæknilausnir eins og Teams og Zoom til að hittast, funda, fræðast og efla okkur. Ég þakka árinu 2020 fyrir hraðkúrsinn í að tæknivæða fundi og viðburði á mettíma. Í raun hefur tæknivæðingin gefið okkur fleiri tækifæri til að nálgast allskyns þekkingu, fræðslu og tengsl þar sem flest allir viðburðir eru komnir á netið þannig að maður þarf ekki að fara út úr húsi með tilheyrandi púsli á tíma og umferð. Árið 2020 hefur einnig gefið mér tækifæri til að endurnýja kynni mín við Stjórnvísi með því að taka þátt í stofnun faghóps um leiðtogafærni. Nú er ekki lengur fyrirstaða að bruna yfir heiðina til að ná á skipulagsfund vegna viðburða heldur sest ég í hádegishléinu mínu við tölvuna og tengist hinum í stjórninni í gegnum netið og við afgreiðum dagskrá næsta viðburðar á örstuttu stundu þar sem enginn þarf að stressa sig yfir umferðinni.

Árið 2020 hefur líka fært mér nýjar venjur og fókus hjá mér persónulega. Árið hefur sýnt mér mikilvægi þess að eiga alvöru samræður frekar en yfirborðskennt spjall. Þá örfáu tónleika og viðburði sem ég hef sótt í ár hef ég sannarlega notið til fulls, ég upplifði þá í núvitund en ekki í gegnum símann eða með hugann við eitthvað annað. Náttúran sem við eigum er dásamleg og hvað við erum heppin að hafa svona gott aðgengi að henni. Það er magnað hvað útivera og ferskt súrefni getur gert fyrir lundina, ekki er verra hvað það „hreinsar“ til í hausnum að vera úti í náttúrunni og njóta. Vá, hvað hlátur getur gert mikið og verið streitulosandi. Það er dásamlegt að vera í samveru við annað fólk og finna skoplegu hliðarnar á lífinu, ég hef fengið nokkur hlátursköst á árinu þar sem tárin bókstaflega frussuðust úr augunum, ég mæli með reglulegum hlátursköstum. Ég ætla sannarlega að halda áfram að æfa mig að hlægja, eiga góðar samræður, njóta náttúrunnar og útiverunnar og upplifa þá menningu og lista sem samfélagið hefur upp á að bjóða á nýju ári.

Ég skora á þig að horfa yfir árið 2020 og spyrja sjálfa(n) þig, hvað hefur þetta óvenjulega ár kennt þér? Hverju viltu sleppa tökum á og hvað viltu taka með þér inn í nýja árið 2021?

 

Njóttu aðventunnar og jólahátíðarinna,

Laufey Guðmundsdóttir

Verkefnastjóri, markþjálfi, teymisþjálfari og mikil áhugakona um félagsmál

 

Nýjar fréttir