-7.3 C
Selfoss

Eitt ár frá einu versta áhlaupi á raforkukerfi RARIK

Vinsælar fréttir

Óveðrið sem gekk yfir landið um miðjan desember 2019 var það versta sem raforkukerfi RARIK hafði þurft að glíma við allt frá árinu 1991. Desember óveðrið var mikil áskorun fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þess, bæði vegna truflana í kerfi RARIK og ekki síður vegna truflana í flutningskerfi Landsnets.  Tjónið á dreifikerfi RARIK var verulegt en ríflega 140 staurar brotnuðu auk annarra skemmda sem ollu yfir 50 truflunum í kerfinu og skerti orkuafhendingu til notenda umtalsvert. Orkuskerðing vegna veðursins var meiri en samanlögð skerðing vegna fyrirvaralausra truflana í kerfinu síðustu þrjú ár þar á undan.

Endanlegar viðgerðir á dreifikerfi RARIK stóðu yfir langt fram eftir þessu ári þar sem loftlínum hefur verið skipt út fyrir jarðstrengi. Stærsti hluti þeirra lína sem biluðu í óveðrinu í fyrra hefur nú verið lagður í jörð og verður því verki haldið áfram á næsta ári. Í dag er dreifikerfi RARIK því betur í stakk búið til að takast á við sambærileg veður og gengu yfir landið í desember í fyrra.

Endurnýjun dreifikerfisins

Dreifkerfi RARIK er samanlagt um 9.000 km að lengd og er langstærsta raforkukerfi landsins. Allt frá óveðrinu 1991 hefur RARIK staðið fyrir markvissri jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins og hafa að jafnaði um 200 km af strengjum verið lagðir jörð á ári í stað eldri loftlína. Þetta hefur skilað sér í færri truflunum í kerfinu sem rekja má til veðurs.

Árið 2020 eitt mesta framkvæmdaár í sögu RARIK

Samkvæmt langtímaáætlun RARIK um endurnýjun dreifikerfisins er gert ráð fyrir að allt dreifikerfið verði komið í jarðstrengi árið 2035. Í kjölfar óveðursins í desember í fyrra ákvað stjórn RARIK að auka framlög til strengvæðingar á þeim svæðum sem verst urðu úti og einnig komu stjórnvöld með aukafjárveitingu til að flýta ákveðnum verkefnum, þar á meðal strenglögnum, sem voru á langtímaáætlun seint á tímabilinu. Því er nú að ljúka einu stærsta framkvæmdaári í sögu RARIK sem skilar sér vonandi í minna tjóni í næsta áhlaupi. Auk þess hafa stjórnvöld ákveðið að ráðstafa fjármunum til að flýta endurnýjun dreifikerfisins þannig að allir stórir notendur verði komnir með þriggja fasa rafmagn á næstu fimm árum og öll býli í ábúð 2030.

 

Nýjar fréttir