-7.9 C
Selfoss

Merkar bækur um Samvinnufélögin á Suðurlandi

Vinsælar fréttir

Mikið afrek er í höfn þar sem Guðjón Friðriksson hefur ritað Héraðssögu kaupfélaga og annarra samvinnufélaga í sunnlenskum sýslum og Vestmannaeyjum. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er fremstur meðal jafningja og hefur komið að mörgum sagnfræðilegum verkum og skilað af sér ómetanlegum fróðleik.  Þar ber að nefna baráttusögur Jóns Sigurðssonar forseta og frelsishetju, Einars Benediktssonar skáldsins og athafnamannsins, Hannesar Hafstein skálds og ráðherra og Jónasar Jónssonar frá Hriflu.

Það var árið 2015 að Jón Ó Vilhjálmsson formaður KÁ kom til undirritaðs að ræða hugmynd um kvikmyndagerð um samvinnusögu sunnlendinga sem stjórnin var þá að hugleiða. Ég minnist þess að þá sagði ég við Jón það verður hvorki fugl né fiskur nema sagan sé fyrst skráð í bækur. Við gengum svo á fund Guðjóns Friðrikssonar og litlu síðar gerðu samvinnumenn samning við hann um að rita þetta mikla verk. Nú væri auðvelt að kvikmynda samvinnusöguna handritið liggur fyrir. Fjögurra binda verk kom fyrir sjónir sunnlendinga nú fyrir jólin og segja verður að hér er atvinnusaga sunnlendinga skráð á hinni miklu athafnaöld sem tuttugasta öldin var. Hjörtur Þórarinsson  segir í aðfaraorðum bókanna. „Sagan er yfirgripsmikil og greinargóð og staðfest öruggum heimildum.“

Í bókunum er þó ítarlegast fjallað um sögu allra kaupfélaganna Kaupélags Árnesinga, Rangæinga, Vestur-Skaftfellinga og Vestmannaeyja og að auki Kaupfélagsins Þórs á Hellu og Kaupfélagsins Hafnar á Selfossi. Menn úr öllum flokkum voru samvinnumenn og þessi atvinnu- og verslunarsaga varð svo hörð á tímabili að trúaðir menn versluðu við sitt kaupfélag. Framsóknarmenn létu frekar vöruna vanta en fara inn í Höfn eða Kaupfélagið Þór á Hellu og öfugt, en þar réðu sjálfstæðismenn með sinn jarl Ingólf Jónsson ráðherra og kaupfélagsstjóra og Sigurður Óli Ólafsson alþingismaður í Höfn á Selfossi. Þór og Höfn voru utan við SÍS. Enn eitt Íhalds-kaupfélagið enn var Verslunarfélag Vestur-Skaftfellinga í Vík. En fyrir kaupfélagi Árnesinga fór Egill Thorarensen jarlinn af Sigtúnum. Það sem undirrituðum finnst magnaðast er hvernig Guðjóni tekst að setja söguna í svo lifandi form að maður les eins og um spennusögu sé að ræða.  Saga Kaupfélaganna t.d. í Vestmannaeyjum er nánast eitt kaupfélag fyrir hvern flokk, þar sem ríkti átök og barátta þar til að loks tókst að sameina þau þegar Guðni B Guðnason var þar kaupfélagsstjóri. En Guðni bjó lengi hér á Selfossi og var aðstoðarkaupfélags-stjóri KÁ. Guðni lifir enn í hárri elli og er faðir þess magnaða sóttvarnarlæknis Þórólfs Guðnasonar.

Það er engin spurning að samvinnan var aðferð og aflið á landsbyggðinni sem sá og sigraði. Þegar búið var að sameina þessi stórveldi öll sem kaupfélögin voru í eitt KÁ komu endalokin, en Guðjón veltir upp þessari spurningu í lokin. „Tveir síðustu framkvæmdastjórar KÁ voru einkaframtaksmenn.“ Var það ástæðan fyrir því að hugsjónin dó? Hitt var líka ljóst að kaupfélögin á Suðurlandi voru ekki í útgerð eða rekstri afurðastöðva bænda. Á Suðurlandi voru Sláturfélag Suðurlands (SS) og Mjólkurbú Flóamanna (MBF) í sérstökum samvinnufélögum og eru það enn og blómstra sem slík. MBF /MS) með landið allt undir og SS eitt sterkasta samvinnufélag bænda. Kaupfélag Skagfirðinga sem er eitt best rekna fyrirtæki landsins er bæði til lands og sjávar og þar ríkir enn samvinnuandi og héraðsbarátta enda svæðið nefnt Skagfirska Efnahagssvæðið.

Hinn stóri Jarl samvinnusögu sunnlendinga var svo Egill Thorarensen, sá sem kom ungur og ástfanginn og nánast braust inn í Sigtún Daníels kaupmanns til að ná í Kristínu kaupmannsdóttur. Egill varð umsvifamikill kaupmaður, íhaldsmað-ur sem söðlaði um og varð kaupfélagsstjóri og framsóknarmaður. Engum manni líkur sennilega mjög auðvelt bæði að dá hann og hata. Í allri framgöngu djarfur og má ætla að framganga hans hafi verið svona eins og Kára Stefánssonar í samtímanum.  Egill tók alltaf slaginn með gleði eða af hörku. Hugsa sér glímuna við séra Gunnar Benediktsson sem gagnrýndi Egil og Kaupfélagið harkalega og vildi svo ganga í Kaupfélagið. Egill tók það ekki í mál og séra Gunnar kærði málið og var dæmdur inn í KÁ, eini maðurinn sem hefur verið dæmdur inn í kaup-félag. Eða þegar Ölfusárbrúin féll og tveir mjólkurbílar fóru í fljótið en mann-björg varð, sagði Egill; „skítt með brúna, góðu fréttirnar eru þær að nú fáum við nýja brú.“ Egill sameinaði Árnesinga og Rangæinga um hafnargerð og útgerð í Þorlákshöfn sem var afrek. Hann hélt slíkar dýrðar veislur með mat og brenni-víni í Þorlákshöfn að séra Helgi í Hveragerði kvað þessa vísu; Hér er margur sæll í sinni/sveitarígur burtu fer./Þjórsá verður minni og minni,/því meira sem drukkið er. Ætli Elliði Vignisson hefji svona veislur Þorlákshöfn til vegs og virð-ingar höfninni og í minningu Egils?

Í bókinni birtir Guðjón palladóm þess fræga Stokkseyrings Helga Sæm. að Agli látnum. En þar segir Helgi m.a. „Skapgerð hans var ofin úr mörgum og ólíkum þáttum, harka og mýkt, alvara og glettni og allt í óvenjulega ríkum mæli. Egill var andstæðingum og keppinautum óhlífinn í stórmannlegri baráttu fyrir mál-efnum sínum, horfði yfir Suðurland eins og örn af gnæfandi fjallsbrún og leið engum að hindra fyrirætlanir sínar.“ Undir lokin segir Helgi; „ Loks ber að muna þegar þessi mannsmynd er skoðuð, að Egill í Sigtúnum gekk sjaldnast heill til skógar. Hann lá að jafnaði tvær eða þrjár banalegur á ári. Egill bognaði aldrei en brotnaði í bylnum stóra seinast.“ Enda á Jón Hjaltalín læknir að hafa sagt við Egil; „Egill þú hefur snuðað dauðann um tuttugu ár! Þú áttir að fara fyrir tuttugu árum.“

Egill var kominn með það sem gerði Kaupfélag Skagfirðinga að stórveldi.  Hann reisti Meitilinn í Þorlákshöfn sem KÁ gerði út og vertíðarbátarnir hétu Jónas frá Hriflu, Hermann Jónasson og Ágúst í Birtingaholti í höfuðið á hinum pólitísku foringjum. Hann sigldi með varninginn heim, fyrst um Eyrarbakka og síðar Þor-lákshöfn, með Bláfellinu. MBF varð að fá Egil í Mjólkurbúið og Gísli Jónsson á Stóru-Reykjum lét Jón son sinn leiða hana Húfu niðrá Selfoss til Egils og þar með var hann orðinn kúabóndi og varð formaður MBF til dauðadags og eins og segir í bókinni rak þessi systurfélög saman  KÁ og MBF.  Egill Thorarensen fylgdi eftir og gerði Flóaáveituna að ævintýri Sunnlendinga.  Hann lagði grunninn að stofn-un Kaupfélags Árnesinga með frænda sínum Helga Ágústssyni frá Birtingaholti, þeir ákváðu að hinn mikli forysumaður Ágúst í Birtingaholti yrði formaðurinn og völdu garpa með honum í stjórnina. Svo tók Egill hið unga Mjólkurbú Flóa-manna  í hina hendina og ruddi brautir til framtíðarinnar. Egill er guðfaðir Sel-foss og Þorlákshafnar. Jarlinn hafði plóginn í annarri hendinni og sverðið í hinni og fylgdi eftir hugsjónum Jónasar frá Hriflu. Ég spyr að hverju kom Egill ekki í bernsku Selfoss?  Hann var örninn sem af fjallsbrúninni sá þetta allt fyrir sér og taldi eins og kóngurinn að Suðurland væri stórt konungsríki. Gömlu samvinnu-mennirnir sögðu gjarnan þegar þeir soguðu neftóbakið upp í nösina; „Já Egill tók við þar sem guð almáttugur lauk sínu sköpunarverki.“

Bækur Guðjóns Friðrikssonar eru afbragð og eiga að fá sess og sæti á hverju heimili á Suðurlandi..

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir