Á samningstímanum mun sérfræðingar HR og nemendur háskólans meðal annars vinna rannsóknaverkefni um vistferilsgreiningu á plasti og greina inn- og útflæði plasts á Íslandi. Þá verða gerðar rannsóknir á eiginleikum endurunnins plasts og möguleikum til vöruþróunar og framtíðarnotkunar. Einnig er stefnt að því að fræða almenning og ungt fólk um þau verðmæti sem felast í endurunnu plasti og gera aðferðir við endurvinnslu og endurnýtingu plasts aðgengilegri fyrir einstaklinga, menntastofnanir og atvinnulífið.
Sjálfbærni er eitt áhersluatriða HR og sérfræðingar Pure North tóku í lok haustannar þátt í kennslu í þriggja vikna námskeiðinu Inngangur að verkfræði, sem allir fyrsta árs nemar í verkfræði sitja. Í námskeiðinu unnu nemendur að fjölbreyttum verkefnum um endurvinnslu og endurnýtingu plasts. Fjölmargar áhugaverða hugmyndir litu dagsins ljós, svo sem fræðslusíða um endurvinnslu, niðurbrjótanleg fiskinet, fjölfylliflöskur fyrir gos og kvóti á plastnotkun í byggingariðnaði.
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir að samstarfið við Pure North sé mikilvægur hlekkur í áherslu á sjálfbærni og umhverfismál í kennslu, rannsóknum og öðru starfi háskólans.
Háskólinn í Reykjavík vinnur samkvæmt viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun ábyrgra leiðtoga, með áherslu á samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Eitt af fjölmörgm viðfangsefnum Íslands í þeim efnum varðar það plast sem fellur til. Pure North hefur náð eftirtektarverðum árangri við endurvinnslu plasts á umhverfisvænan hátt um leið og áhersla er á að fræða atvinnulíf og almenning um endurvinnslu og hringrásarhagkerfið. Við erum því mjög ánægð með þetta nýja samstarf okkar og erum þess fullviss að það muni skila sér í aukinn þekkingu, nýsköpun og hreinna umhverfi.
„Við erum ótrúlega þakklát og spennt fyrir þessu samstarfi. Það liggja gríðarleg tækifæri fyrir Ísland í því að efla hringrásarhagkerfið og sjálfbærni með innlendri endurvinnslu. Það er mikil þekking, fagmennska og metnaður hjá HR í þessum málaflokki og það er mikilvægt fyrir frumkvöðlafyrirtæki eins og Pure North að fá tækifæri til slíks samstarfs. Ég er fullviss um að út úr þessari samvinnu kemur eitthvað meiriháttar,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir, hjá Pure North.
Pure North Recycling endurvinnur plast með umhverfisvænum orkugjöfum og er jarðvarminn þar í aðalhlutverki. Í endurvinnslunni er óhreinum plastúrgangi breytt í plastperlur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis. Fyrirtækið er eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Markmið endurvinnslunnar er að plast verði aftur að plasti og að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna. Vinnsluaðferð Pure North Recycling er einstök á heimsvísu, umhverfisvæn og byggir á íslensku hugviti.