Það var fyrir rétt rúmu ári sem að framkvæmdir hófust við hjúkrunarheimilið á Selfossi. Skóflustunga var tekin 22. nóvember 2019 og framkvæmdir hófust í desember. Alls verða 60 hjúkrunarrými til ráðstöfunar fyrir íbúa í sveitarfélögum á Suðurlandi. Byggingin er við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Hún er um 4000 fermetrar og þykir nokkuð óvenjuleg útlits. Byggingin er hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Hvert hjúkrunarrými mun hafa einkasvalir eða garðskika sem liggja ýmist inn í garðinn eða út á við. Á heimilinu er ætlunin að gera íbúum kleift að sinna sem flestum þáttum daglegs lífs, þrátt fyrir ýmsa aldurstengda kvilla.
Það er byggingafyrirtækið Eykt sem bauð best í útboðinu en fimm fyrirtæki tóku þátt. Áætlað er að byggingunni verði lokið í ágúst, en fyrstu íbúar flytji inn nú í haust.