-6.1 C
Selfoss

Vanhugsað innflytjendafrumvarp

Vinsælar fréttir

 

Félagsmálaráðherra Framsóknar hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um málefni innflytjenda. Megin tilgangur frumvarpsins er að samræma móttöku flóttafólks. Í greinagerð með frumvarpinu er setning sem vekur athygli en þar segir: „Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins.“ Hér þarf að staldra við og skoða hvað þetta þýðir í reynd. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á síðasta ári en hlaut ekki afgreiðslu. Ljóst er að ríkisstjórnin ætlar sér að koma málinu í gegnum þingið fyrir kosningar. Í umræðunni spurði ég ráðherra hvort að með þessu frumvarpi væri enginn greinamunur gerður á kvótaflóttamönnum og hælisleitendum sem fá dvalarleyfi, þegar kemur að þjónustu. Svaraði ráðherra því að þeir myndu fá sömu þjónustu.

Kvótaflóttamenn og hælisleitendur ekki það sama

Verði frumvarpið að lögum munu hælisleitendur með dvalarleyfi og kvótaflóttamenn fá sömu þjónustu. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða sem mun hafa veruleg aukin fjárútlát í för með sér fyrir ríkissjóð. Á síðasta ári tók Ísland á móti 85 kvótaflóttamönnum en 631 hælisleitandi fékk dvalarleyfi. Meðalkostnaður vegna móttöku kvótaflóttafólks fyrir einhleypa er um 6 milljónir á ári. Það er sérkennilegt að yfirfæra réttindi kvótaflóttafólks yfir á hælisleitendur. Þetta er tvennt ólíkt. Fólk sem við samþykkjum að taka við og sjá um og síðan fólk sem kemur hingað á eigin vegum, sem ekki er ljóst hvort að uppfyllir alþjóðleg skilyrði þess að vera flóttamenn.

Ísland þekkt fyrir bestu þjónustuna

Hér eru nokkur dæmi um þjónustuna sem yrði þá í boði fyrir hælisleitendur:  Greidd er framfærsla í eitt ár, desemberuppbót og barnabætur í eitt ár. Greitt er fyrir leikskóla, 100 þúsund á mánuði í 11 mánuði, skólamáltíðir í 9 mánuði, frístundaheimili í 9 mánuði, styrk við skólabyrjun og eingreiðslu fyrir íþróttir og tómstundir. Meðlag í 2 mánuði. Framhaldsskóli í 2 annir. Heilbrigðisþjónusta og lyf í 6 mánuði. Tannlæknir 115 þúsund.  Sálfræðiþjónusta fyrir 264 þúsund per einstakling og önnur sérfræðileg ráðgjöf í 12 mánuði. Stuðningur heim er greiddur, um 100 þúsund á fjölskyldu. Handleiðsla starfsmanna er greidd, 390 þúsund á fjölskyldu. Túlkaþjónusta, 270 þúsund á fjölskyldu. Húsaleiga í 2 mánuði og húsnæðisbætur sveitarfélags í 12 mánuði. Gleraugu 30 þúsund. Sími  og internet í 1 mánuð. Strætókort. Einnig gera stjórnvöld samning við Rauða krossinn um þjónustu. Nemur kostnaðurinn um 600 þúsund á einstakling og er það viðbót við það sem að ofan greinir.

Fjöldi umsókna um hæli á Íslandi myndi margfaldast

Íslendingar hafa tekið vel á móti kvótaflóttamönnum en þeir koma iðulega frá stríðshrjáðum löndum. Við eigum áfram að sinna þessum hópi vel og aðstoða við aðlögun þeirra í íslenskt samfélag. Hafa ber þó í huga að fyrir hvern einn flóttamann sem hingað kemur er hægt að aðstoða 12 á heimaslóðum. Með því að veita hælisleitendum og kvótaflóttamönnum sömu þjónustu er gengið of langt. Skilaboðin berast hratt út í heim og viðbúið er að umsóknir um hæli á Íslandi muni margfaldast og skipta þúsundum á skömmum tíma. Enda Ísland þekkt fyrir að veita eina bestu þjónustuna í málaflokknum. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið það út að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sé orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft málaflokkinn á sinni könnu um árabil og er greinilega ófær um að leysa vandann.  Frumvarp félagsmálaráðherra er haldið verulegum ágöllum. Það getur einungis til um kostnaðarauka við tvö stöðugildi hjá Fjölmenningarsetri upp á 24 milljónir króna árlega. Þegar kostnaðaraukinn getur í reynd orðið milljarðar króna og við myndum missa málaflokkinn úr böndunum.  Miðflokkurinn leggst gegn frumvarpinu í núverandi mynd.

Birgir Þórarinsson

höfundur er þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.

 

 

Nýjar fréttir