Undanfarið hefur ýmislegt verið rætt og ritað varðandi stöðu leikskólamála hér í svf. Árborg. Umræðan hefur að miklu leytið snúið að fyrirhuguðum lokunum leikskólana yfir sumartíman, en við undirritun nýjustu kjarasamninga leikskólakennara og viðsemjenda þeirra lengdist sumarleyfistími þeirra um viku og þar með lengdist lokun leikskólana til samræmis við það. Leikskólarnir í Árborg verða því lokaðir í 6 vikur samfellt frá 29. júní – 9. ágúst 2021 í stað 5 vikna áður.
Á það hefur verið bent að þetta fyrirkomulag hentar mörgum einstaklega illa, bæði foreldrum og starfsfólki leikskólanna, enda geta ekki allir tekið frí á sama tíma ár hvert af þeirri einföldu ástæðu að atvinnulífið tekur í fæstum tilfellum mið af lokunum leikskóla þegar kemur að því að skipuleggja sumarfrí starfsfólks eða önnur frí ef því er að skipta.
Af þessu leiðir að foreldrar ná í mörgum tilfellum ekki að taka sumarfrí saman með börnunum sínum og sumarfrí starfsfólks leikskólanna og maka þess falla heldur ekki alltaf saman af sömu ástæðum.
Breytinga er þörf
Við í Áfram Árborg vorum með það á stefnuskrá okkar að breyta sumarlokunum leikskólanna og var það tekið inn í meirihlutasáttmála núverandi meirihluta bæjarstjórnar Árborgar með þessum orðum: „Opnunartímar og sumarlokanir leikskóla verði endurskoðaðir í samráði við starfsfólk og foreldra“.
Núna er sú staða kominn upp að þessi endurskoðun þarf að hefjast sem fyrst enda breyttust forsendur mikið í rekstri leikskólanna í upphafi árs vegna lengingu sumarleyfa eins og áður sagði, ásamt styttingu vinnuvikunnar og aukins undirbúningstíma leikskólakennara.
Ég held að flestir geti verið sammála um að leikskólarnir í Árborg séu góðir og ég trúi því að við viljum áfram vera með góða leikskóla sem veita foreldrum og atvinnulífinu góða þjónustu, að innan þeirra fari fram metnaðarfullt faglegt starf sem þroskar og virkjar börnin okkar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og starfsfólkinu séu tryggðar eins góðar starfsaðstæður og völ er á ásamt því að hafa tækifæri til að vaxa og eflast í sínu starfi.
Í dag virðist vera ákveðið ójafnvægi í starfssemi leikskólanna og sést það annars vegar á því að starfsmannavelta leikskólanna er há og miklar fjarvistir vegna veikinda (eins og kom fram í skýrslu Haraldar Líndal sem unnin var fyrir bæjarstjórn í janúar 2019) og hins vegar að stór hluti foreldra er ekki ánægður með þá staðreynd að leikskólum sveitarfélagsins sé lokað í 5 og nú 6 vikur samfellt yfir sumartímann.
Leysum þetta saman
Öllum áskorunum fylgja tækifæri og nú er rétti tíminn til að fara af stað með heildarendurskoðun á starfsemi leikskólanna okkar með það fyrir augum að bæta starfsemi þeirra á þann hátt að þeir þjóni hagsmunum allra sem að þeim koma. Þetta á jafnt við um börnin, foreldrana og starfsfólk þeirra. Af þeim sökum mun ég leggja til að skipaður verði starfshópur með fulltrúum sveitarfélagsins, foreldrum og starfsfólki leikskólanna til að móta framtíðarstefnu leikskólanna í Árborg. Það er von mín að sú vinna eigi eftir að skila okkur áfram í fremstu röð þegar kemur að starfsemi leikskóla á Íslandi og skapi sátt um þetta mikilvæga starf sem á sér stað innan leikskólanna enda snýst sú starfssemi um mestu verðmæti okkar allra, börnin okkar.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
bæjarfulltrúi Á-lista í svf. Árborg