Í dag birtist tvöhundraðasta uppskriftin í boði Hannyrðabúðarinnar hér í Dagskránni. Þær hafa nú birst á hálfs mánaðar fresti í rétt rúmlega átta ár og notið mikilla vinsælda.
„Uppskriftirnar eru allar unnar af okkur sjálfum og við skiptumst á að hafa umsjón með þeim,“ segja Alda Sigurðardóttir og Þóra Þórarinsdóttir, eigendur Hannyrðabúðarinnar á Selfossi. „Það liggur oft mikil vinna á bak við hverja uppskrift, en við höfum báðar gaman af að skapa eitthvað nýtt og við sjáum að viðskiptavinirnir kunna vel að meta að geta fengið stakar uppskriftir og fengið að skoða og handfjatla stykkin í búðinni.
Flestar uppskriftirnar eru af hekluðum og prjónuðum peysum, húfum, vettlingum, sokkum og hálstaui en líka ýmisskonar heimilistaui eins og teppum, tuskum, dúkum og tækifærismunum. Auk þess hafa slæðst með hugmyndir fyrir útsaum og aðrar aðferðir til hannyrða enda verslum við með allt sem þarf til hefðbundinna hannyrða.”
Gott úrval er í Hannyrðabúðinni og margt sem ekki fæst í öðrum verslunum hér á landi. „Við viljum gjarnan skapa okkur sérstöðu og erum með um 140 mismunandi garntegundir í versluninni, flestar flytjum við sjálfar inn. Okkur finnst skemmtilegt að vinna með fallegt garn og viðskiptavinir okkar eru mjög þakklátir þegar þeir sjá hugmyndir um hvað gera má úr hverri tegund og hvernig garnið kemur út.“
Þær stöllur verða oft varar við að fólk klippi uppskriftirnar út og geymi og margir segjast hlakka til að sjá hvaða uppskrift komi þegar Dagskráin kemur út. „Svo getur fólk skoðað allar uppskriftirnar hjá okkur og keypt þær sem þeir hafa misst af.“
Óhætt er að fullyrða að áhugi fyrir handavinnu hefur vaxið mikið undanfarið ár. „Það er eitthvað alveg sérstakt við að eiga handunna flík, þær eru unnar af alúð og enginn annar á nákvæmlega eins. Þú velur hráefnið og litina og átt alveg einstaka flík.
Það eru alltaf að koma nýir og nýir kúnnar, sumir eru algerir byrjendur og við aðstoðum þá við val á garni og uppskrift og svo eru fjölmargir að byrja aftur, hafa ekki sinnt hannyrðum um nokkurn tíma og vilja nú hefjast handa. Við sjáum líka að margir eru að taka til í geymslum og drífa í að klára eitthvað gamalt sem finnst. Það getur stundum verið flókið að finna viðbótargarn en við gerum okkar besta.
Samstarfið við Dagskrána hefur verið einstaklega gott og við hlökkum til að halda áfram.”
Myndir af öllum uppskriftunum má sjá í sérstakri myndamöppu á facebook síðu Hannyrðabúðarinnar.