Eftir nokkurra mánaða bið komust nemendur í Bláskógaskóla Laugarvatni, Bláskógaskóla Reykholti og Kerhólsskóla aftur á smiðjudaga. Á smiðjudögum hittast unglingadeildir þessara skóla og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Dagarnir eru tækifæri fyrir nemendur lítilla skóla til að hittast og kynnast betur og fá tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni. Nemendur koma sjálfir með hugmyndir að verkefnum og velja svo úr fjölbreyttum smiðjum. Þær standa í tvo daga en nemendur gista saman í móttökuskólanum í eina nótt. Skólarnir skiptast á að vera gestgjafar svo að nemendur fara þrisvar yfir skólaárið á smiðjudaga.
Að þessu sinni var það Bláskógaskóli Laugarvatni sem að tók á móti gestum. Nemendur fóru í fjölbreyttar smiðjur þar sem þeir lærðu meðal annars að lita og prenta á föt, búa til sushi og ís, rannsökuðu hella og sigldu á Laugarvatni. Auk þess fengu nemendur kennslu í fótbolta og smíðum og heimsókn frá trúbador. Það er óhætt að segja að nemendur hafi verið þreyttir eftir tvo stífa daga en jafnframt ánægðir með afraksturinn.
Smiðjudagar eru nú haldnir fjórða árið í röð með góðum árangri. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hvað nemendahópurinn er einbeittur og jákvæður í verkefninu. Allir koma til að læra og ná árangri í sínum verkefnum sem að skilar sér í flottum verkefnum og miklu námi á þessum tveimur dögum. Smiðjudagarnir eru líka tækifæri til að bjóða upp á fjölbreytt verkefni og fá til liðs við skólana utanaðkomandi sérfræðinga í ýmsum verkefnum. Meðal þeirra sem hafa komið í heimsókn í gegnum tíðina eru afreksmenn í íþróttum, fjöldi fyrirlesara og listamenn. Allt þetta fólk ásamt frábæru starfsfólki skólann og stuðningi nærsamfélagsins á hverjum stað býr til fleiri og flottari tækifæri fyrir nemendur.