Í fundargerð hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 20. janúar sl. kemur fram að þar hafi mætt fulltrúi Gunnbjarnar ehf ásamt starfsmönnum verkfræðistofunar EFLU, til að kynnna áætlanir Gunnbjarnar um byggingu allt að 85 megawatta vindaflsvirkjunar á jörð félagsins í Skáldabúðum. Á fundinum var lögð fram skýrsla EFLU um tilhögun framkvæmdarinnar, sem nefnd hefur verið Hrútmúlavirkjun og fengið númerið R4304A í Rammaáætlun 4. Í inngangi að skýrslu EFLU segir um tilurð þessa verkefnis og aðkomu sveitarstjórnar: “Kynning var haldin fyrir sveitarstjóra og sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Árnesi þann 24. September 2019 þar sem farið var yfir mögulega tilhögun og næstu skref”. Athygli vekur að þrátt fyrir að hér sé um afar stórkallalega framkvæmd að ræða, sem hafa mun mikil áhrif á ásýnd og framtíðar möguleika íbúa á nágrannajörðum, er efnislega ekkert bókað í fundargerðum sveitarstjórnar um þennan fund og ítreka þurfti beðni til að fá kynningargögn frá honum. Við nánari eftirgrenslan kemur síðan í ljós að framkvæmdaaðili og sveitarstjórn hafa nú í hátt á annað ár unnið að undirbúningi þessa verkefnis, án nokkurs samráðs við íbúa í nágrenni Skáldabúða.
En lítum ögn á umfang þessarar framkvæmdar áður en lengra er haldið eins og hún birtist í framangreindri skýrslu EFLU. Reisa á allt að 25 150 metra háar vindmyllur. Staðsetning þeirra er á túnum jarðarinnar, allt frá ármótum Kálfár og Skáldabúðakvíslar við jarðarmörk Steinsholts, inn ranann á milli ánna meðfram stærstum hluta jarðarmarka móti Minni-Mástungu, inn fyrir túnin þar sem landið fer hækkandi. Bærinn í Skáldabúðum er í nálægt 230 metra hæð yfir sjó, sem þýðir að spaðar vindmyllanna munu skaga allt upp í 370 til 380 metra hæð. Til samanburðar má nefna að hæsti punktur Hlíðarfjalls, Hlíðarkista, er í 365 metra hæð. Í skýrslunni er leitast við að leggja mat á sýnileika framkvæmdanna, en þar segir m.a. “Vindmyllur eru sýnilegar frá nokkrum bæjum til suðurs sem eru flestir í 5 km fjarlægð eða meira”. Hér er vægast sagt lítið gert úr áhrifum þessara framkvæmda á nágrenið. Myllurnar verða mjög sýnilegar af bæjarhlaði Steinsholts og nánast allt land jarðarinar ásamt Mástungubæjum liggja undir gagnvart þessu auk aðkomu að Laxárdal. Þá munu myllurnar blasa við um austanverðar uppsveitir Árnssýslu og til suðurs niður um Rángárþing.
Í skýrsluni er síðan leitast að meta hljóðvist í nágrenni framkvæmdanna og dregin sú ályktun að það verði ekki vandamál á nágrannabæjum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að stór hluti nágrannajarðanna Steinsholts, Laxárdals og Minni-Mástungna er innan áhrifasvæðis hvað þetta varðar og rýrir þar með stöðu þeirra.
Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 15. apríl 2020 var Gunnbirni ehf veitt heimild til að hefja vinnslu við gerð skipulagslýsingar vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þann 10. júní s.l. var síðan lögð fram skýrsla verkfræðistofunar EFLU sem innihélt Skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi sveitarinnar fyrir vindorkugarð í Skáldabúðum, sem sveitarstjórn samþykkti til kynnigar á grundvelli skipulagslaga nr.123/2010. Þann 30. september er síðan lögð fyrir sveitarstjórn umsögn Skipulagsstofnunar vegna framangreindrar skipulagslýsingar, þar segir m.a.: “Eins og áður segir liggur ekki fyrir stefna á lands- eða svæðisvísu um vindorkunýtingu, þ.e. við hvaða aðstæður eða á hvers konar svæðum stefnt skuli að nýtingu vindorku eða hún komi til greina. Því er mikilvægt að sveitarfélagið geri grein fyrir þeim skipulagslegu forsendum sem liggja að baki skipulagsákvörðunum um þetta tiltekna verkefni, sbr. framanlagða lýsingu. Í skipulagstillögu þarf að skýra af hverju sveitarfélagið telur þetta ákjósanlega nýtingu og staðsetningu fyrir vindorkunýtingu og hverjar eru helstu áherslur og markmið sveitarstjórnar með breyttri stefnu um landnotkun”. Afgreiðsla málsins er síðan með eftirfarandi hætti: “Sveitarstjórn samþykkir að vísa þessari lýsingu til höfundar deiliskipulags og taka tillit til ábendinga Skipulagsstofnunar”. Ekki verður því betur skilið en sveitarstjórn vísi vinnu við markmiðsetningu sveitarfélagsins í skipulagsmálum vegna vindorkunýtingar til vekfræðistofu á vegum framkvæmdaaðila. Veruleikinn er sá að með framgöngu sinni er sveitarstjórn að setja aðliggjandi jarðir í herkví skipulagsferilsins og framkvæmdaaðila. Verði málinu haldið áfram í þessum farvegi munu ábúendur því knúnir til að verja hendur sínar gagnvart sveitarfélaginu.
Þau mannvirki sem hér um ræðir eiga ekkert skilt við það sem hingað til hefur verið reist í sveitum landsins og munu hafa afdrifarík áhrif umhverfi sitt, mannlíf og landslag. Slíkar stefnumarkandi ákvarðanir þarfnast því víðtækrar umræðu meðal íbúa og hagsmunaaðila innan sveitarinnar. Það verður þó ekki gert af neinu viti undir þrýstingi eins aðila. Því er hér skorað á sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að stöðva nú þegar þá skipulagsvinnu sem í gangi er vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs í Skáldabúðum.
Sigurður Loftsson Steinsholti