-9.4 C
Selfoss

Skrifstofur á Suðurlandi fyrir störf án staðsetningar

Vinsælar fréttir

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur tekið saman og birt á heimasíðu sinni upplýsingar um þá skrifstofuaðstöðu sem í boði er í landshlutanum fyrir „störf án staðsetningar“. Sveitarfélög og opinberar stofnanir hafa sérstaklega verið hvött til að skrá vinnu- og skrifstofuaðstöðu á síðunni sem í boði er.

Markmið númer 3 í Sóknaráætlun Suðurlands er að opinberum störfum á Suðurlandi fjölgi um 15% fyrir árið 2025. Um er að ræða aðgerð til að vinna að því markmiði. Markmiðið fer einnig saman með gildandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 um störf án staðsetningar. Þar sem unnið er að því að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum á vegum ríkisins verði án staðsetningar árið 2024. Í byggðaáætlun er lagt til að slík störf verði unnin á starfsstöð (þ.e. í húsnæði þar sem fyrir er önnur starfsemi) og því er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um húsnæði sem til greina kemur sem víðast á Suðurlandi.

Einnig heldur Byggðastofnun úti mælaborði fyrir allt landið þar sem hægt er að sjá aðstöðu sem í boði er. Mælaborðið er ætlað að vera lifandi upplýsingabanki fyrir þá aðila sem hugsa sér að sinna opinberu starfi án staðsetningar og forstöðumenn ráðuneyta og stofnana. Aðstaða sem er skráð hjá SASS er uppfærð inn á mælaborð Byggðastofnunnar.

SASS vill með síðunni koma á framfæri upplýsingum um vinnu- og skrifstofuaðstöðu sem í boði er, fyrir alla þá sem hafa hug á að flytjast inn í landshlutann, með sín störf eða fyrir þá sem hafa hug á að sækja um þau opinberu störf sem auglýst eru og starfa við þau á Suðurlandi. Nánari upplýsingar veita eigendur eða umsjónaraðilar húsnæðis á hverjum stað fyrir sig.

Slóðin inn á síðuna hjá SASS er https://www.sass.is/storf-an-stadsetninga/

 

 

Nýjar fréttir