-7.7 C
Selfoss

Sjálfbærni í leikskólastarfi

Vinsælar fréttir

Á dögunum var haldið í Alviðru, umhverfisfræðslusetri í Ölfusi, námskeið fyrir leikskólakennara og annað starfsfólk leikskóla sem bar yfirskriftina Sjálfbærni í leikskólastarfi. Að námskeiðinu stóð Adventures For Students Iceland, nýstofnað fyrirtæki á Selfossi. Fyrirtækið sérhæfir sig í fræðslu um sjálfbærni með námskeiðahaldi fyrir bæði erlenda og innlenda skólahópa og kennara á öllum skólastigum. Fyrirtækið hefur aðsetur á Selfossi og vinnur náið með Adventures For Students í Bretlandi.

Möguleikar til sjálfbærni í skólastarfi

Tilgangurinn með námskeiðinu var að fræða og aðstoða kennara við að innleiða hugmyndafræði sjálfbærni á leikskólastigi, yngsta skólastiginu. Leiðbeinendur voru Margarita Hamatsu, uppeldis- og menntunarfræðingur og deildarstjóri á grænfána Leikskólanum Álfheimum á Selfossi og Hildur Dagbjört Arnardóttir, vistræktarkennari og umsjónaraðili félagslandbúnaðarins Gróanda á Ísafirði. Þátttakendur voru starfsfólk leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, m.a. grænfána Leikskóla Seltjarnarnes, grænfána leikskólans Urðahóls í Kópavogi og Hjallastefnunnar. Á námskeiðinu var m.a. farið yfir hvað það þýðir á vera vistvænn skóli og farið í djúpar umræður um hvað vistrækt og sjálfbærni raunverulega sé, auk þess að skilgreina hvað þurfi til að innleiða sjálfbærni bæði í okkar daglega lífi og í skólastofunni. Meðal þess sem farið var yfir var það að nota endurnýtanleg hráefni í skólastarfinu, rækta grænmeti og plöntur í skólastofunni og að fræða og tengja nemendur við náttúruna.

Leiðbeinendurnir Margarita og Hildur fóru með þátttakendum í djúpa umræðu um sjálfbæran lífstíl, auk þess sem þær héldu fyrirlestra um sjálfbærni í skólastofunni, um moltugerð og aðferðir við að rækta eigin matjurtir og grænmeti. Kennslan var einnig verkleg þar sem þátttakendur smíðuðu sinn eigin ræktunarkassa sem að unnið var með á námskeiðinu, auk þess sem Margarita miðlaði af reynslu sinni af sjálfbærni í skólastarfinu á Leikskólanum Álfheimum. Það er trú námskeiðshaldara að menntun sé besta verkfærið sem við höfum til að takast á við loftslagsbreytingar og önnur umhverfismál. Það er ástæðan fyrir því að ráðist var í það að halda námskeið fyrir kennara á yngsta skólastigi enda var markmiðið að gefa kennurum og öðru starfsfólki á yngsta skólastigi upplýsingar og verkfæri til að miðla hugmyndafræðinni um sjálfbæran lífstíl og hollustu til nemenda. Námskeiðið tókst mjög vel og telja þau sem að námskeiðinu stóðu að mikil þörf sem á að fræða og aðstoða kennara við að kenna sjálfbærni á öllum skólastigum. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðunni Adventures for Students Iceland.

Nýjar fréttir