Furðusögur hafa skoppað í hausnum á mér síðan ég var barn

Salka Jóhannsdóttir er fædd í Reykjavík en uppalin í Danmörku og á Suðurlandi. Hún er allrahanda vinnukona, leiðsögumaður, hesthús eigandi, tungumála unnandi, víkinga endurleikari, hlutverka spilari, píparanemi og lestrarhestur. Hún hefur komið víða við en jafnan staldrað stutt á hverjum stað í leit að lífsreynslu og þekkingu.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er núna að renna í gegnum Discworld bækurnar eftir Terry Pratchett á hljóðbókum í fimmta skipti en sumar bækurnar hef ég lesið miklu oftar. Þetta er þæginda hlustun þegar ég er að vinna í hesthúsinu, keyra, labba eða sofna. Eins og að hafa gamlan vin að segja mér traustvekjandi sögur. Ég er líka með nokkrar í fyrstu umferð Crooked Kingdom eftir Leigh Bardugo, ungmennabækur sem fengu sterk meðmæli frá lestrar vinkonunum. The Waste Lands eftir Stephen King byrjaði ég að lesa af því að hún tengist hlutverkaspili byggt á Dungeons&Dragons kerfinu sem ég spila með hóp af vinum. Driver dug, Falder regn eftir Margit Sönderholm les ég til að viðhalda dönskunni. Já og A Dirty Job eftir Christopher Moore sem ég fann í meðmælum á Storytel og kom mér skemmtilega á óvart.

Hvernig bækur höfða helst til þín?

Ævintýri, fantasíur, furðursögur, ráðgátur og allt sem hefur góðan þráð eða spennandi uppsetningu. Uppáhaldsbækurnar mínar í bernsku voru um Pétur og Brand, ljóðabókin Komdu kisa mín, Enn hvað það var skrítið, Helgi skoðar heiminn, Ástarsaga úr fjöllunum og Goð og garpar eftir Brian Branston. Allt bækur sem ég elska enn þann dag í dag.

Ertu alin upp við bóklestur?

Mamma og pabbi lásu mjög mikið fyrir mig og Jökul bróður og aðal umkvörtunarefni Jónheiðar frænku, þegar hún passaði okkur, var að það var aldrei hægt að hoppa yfir nokkrar blaðsíður í kvöldlestrinum því þá tautaði ég tveggja ára „svona á þetta ekki að vera” og þuldi svo upp það sem hún hafði stokkið yfir. Þannig kunni ég flestar sögubækurnar okkar utan að áður en ég gat farið að lesa þær sjálf. Við fluttum svo til Danmerkur þegar ég var fimm ára og mamma lagði mikið upp úr því að ég kynni að lesa á íslensku áður en ég byrjaði í dönskum skóla. Ég var því fluglæs á báðum tungumálum þegar við fluttum heim þremur árum seinna. Ég byrjaði í þriðja bekk í Helluskóla og þar var fastur leslisti sem krakkarnir þyrftu að fara í gegnum með hækkandi erfiðleikastigi frá Ásu og Lása í gegnum Dúbba Dúfu og svo loks til bóka eins og Sprengjusérfræðingsins sem ég var mjög spennt að lesa en þurfti fyrst að vinna mig í gegnum listann. Þetta drap svo hratt lestrargleði mína að ég var næstum því hætt að lesa.

Ég var svo langt leidd af lestrardrápi að þegar ég fékk Harry Potter og viskusteininn í níu ára afmælisgjöf gaf ég henni ekki séns fyrr en mamma las fyrsta kaflann fyrir mig. Ég kláraði hana næstu nótt. Eftir það var ekki aftur snúið. Meðan ég beið eftir næstu bók réðst ég á bókasafn grunnskólans og voru það barnabækur Yrsu Sigurðardóttur Þar lágu Danir í því, B 10 og Barnapíubófinn, Búkolla og bókarræninginn sem héldu mér við lestur langt fram yfir miðnætti og vöktu foreldra mína með hlátrasköllum. Agatha Christie svalaði ráðgátu þörfinni, Hringadróttinssaga, Gyllti áttavitinn, Stravaganza og Gusts bækurnar héldu ævintýraþránni við. Á unglingsárunum byrjaði ég að lesa á ensku (gat ekki beðið eftir þýðingu á fimmtu Harry Potter bókinni) sem opnaði nýja heima. Þá arfleiddi besta vinkona mín mig að bókakassa og gaf mér eina með þeim orðum að „þessi er ekki fyrir mig. Þetta er einhver fantasía. Þú fílar svoleiðis.” Það var bókin Neverwhere eftir Neil Gaiman og eftir að hafa lesið hana á mettíma skilaði ég henni aftur til Hörpu og bað hana að gefa henni annan séns sem hún og gerði. Síðan þá höfum við lesið allt sem Gaiman hefur skrifað.

En hvernig lýsir þú lestravenjum þínum?

Ólíkt mörgum sé ég ekkert að því að nýta mér tæknina við lestur, lykt af bókum og pappírs tilfinningin er kósí en góð saga sem kveikir í manni skiptir mestu máli. Ég keypti mér kindle lesbretti þegar það var ennþá frekar nýtt fyrirbæri og fékk þá loksins skjótan aðgang að bókum sem ekki hafa verið þýddar eða gefnar út á Íslandi nema kannski fyrsta bindi eins og Howl’s Moving Castle og Chrestomanci seríum Diana Wynne Jones. Ég les minna á bók/bretti núna en ég gerði fyrir fimm árum en nýti mér hljóðbækur óspart. Þær hafa sína kosti og galla en gefa mér það sem ég elska mest við bækur og það er að ferðast um stund í öðrum heimi og leiða hugann að mér ótengdum vandamálum sem leysast að lokum í síðustu köflum bókarinnar.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Uppáhaldshöfundar mínir eru Neil Gaiman, Terry Pratchett, Diana Wynne Jones og J.R.R Tolkien fyrir að hafa víkkað skilning minn á hvað ævintýri getur verið.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ég get sofnað við góðan lestur á bók sem ég þekki en ef ég er búin að kaupa mig inn í söguna þá get ég lesið til morguns eða til söguloka.

En að lokum Salka, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi vilja skrifa ævintýri eða furðusögur. Þær hafa skoppað um í hausnum á mér síðan ég var barn en það er ekki nóg að eiga góða hugmynd, það þarf að skrifa og skrifa á hverjum degi og það er vani sem ég er ennþá að venja mig á.