Krabbameinsfélag Árnessýslu fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu með glæsilegri hátíð um liðna helgi. Fjöldi sótti viðburðinn og þáði kökur, kaffi og grillaðar pylsur. Yngri kynslóðin skemmti sér í hoppuköstulum milli þess að fá sér pylsu eða kökur. Í samtali við Svanhildi Ólafsdóttur, formann félagsins kom fram að starfsemi félagsins hefi eflst mikið síðustu ár og virkum félögum fari fjölgandi. Þörfin fyrir öflugt félag sé fyrir hendi. „Með elju félagsmanna, óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða og öflugum stuðningi frá samfélaginu í heild, er mögulegt að efla starfsemi félagsins enn meira, og það er okkar markmið.“
Stærra hlutverk að huga að félagslega þættinum
Við Svanhildur ræðum áfram saman. Hún segir að Saga félagsins séáhugaverð og gaman að líta til þeirra markmiða sem lagt var upp með í byrjun; Að koma á fót leitarstöð fyrir krabbamein í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands og Heilsuverndarstöð Selfoss. „Því markmiði var náð með myndarlegum hætti og skipti gríðarlega miklu til að greina krabbamein á frumstigi og þar með að auka lífslíkur þeirra sem greindust. Nú, fimmtíu árum síðar, hafa bæði markmið og ásýnd félagsins í samfélaginu breyst töluvert. Það er orðið stærra hlutverk aðildarfélaga, líkt og Krabbameinsfélags Árnessýslu að huga að andlega og félagslega þættinum, veita stuðning og ráðgjöf bæði til nýgreindra og aðstandenda þeirra,“ segir Svanhildur að lokum.