-7.6 C
Selfoss

Norðlendingar halda tónleika í Skálholti, en stjórnandinn býr á Selfossi

Vinsælar fréttir

Kammerkór Norðurlands mun halda tónleika í Skálholti laugardaginn 12 júní kl:16.00. Kórinn var stofnaður skömmu fyrir aldamótin síðustu og í honum er söngfólk víðs vegar af norðurlandi, allt frá Kópaskeri til Sauðárkróks og er ærið langt fyrir suma að mæta á æfingar.  Ennþá lengra er þó fyrir stjórnanda kórsins  Guðmund Óla Gunnarsson, en hann býr á Selfossi.  Hann nam hljómsveitarstjórn í Utrecht og Helsinki og hefur stjórnað fjölda hljómsveita  og ýmsum kórum í gegnum tíðina.

Kammerkór Norðurlands hefur flutt fjölbreytta tónlist á þessum rúmum 20 árum; þjóðlög, madrígala, popplög, kirkjutónverk, jafnvel kvikmyndatónlist, en fyrst og fremst einbeitt sér að flutningi íslenskra tónverka sem mörg hver  hafa verið samin sérstaklega fyrir hann.  Hann hefur gefið út 3 hljómdiska.

„Við félagar í Kammerkór Norðurlands getum vart lýst því hve ánægð við erum með að fá nú loksins að halda tónleika, en á undanförnum mánuðum höfum við margoft skipulagt og undirbúið tónleika, en pestin ætíð hindrað framkvæmd.“ segir Ásgeir Böðvarsson, félagi í Kammerkór Norðurlands og bætir við: „Efnisskráin hjá okkur ber þess kannski einnig merki að við erum í eins konar ástandi milli verkefna.  Á fyrri hluta tónleikanna flytjum við valin kórlög frá Norðurlöndunum og einnig frumflytjum 4 gullfalleg ný lög eftir stjórnandann Guðmund Óla Gunnarsson við ljóð Páls Ólafssonar.

Á seinni hluta tónleikanna verða flutt lög við ljóð Davíðs Stefánssonar úr „Svörtum Fjöðrum“ en fyrir einu og hálfu ári minntumst við þess að 100 ár voru liðin frá útkomu þeirrar frægu ljóðabókar og héldum þá allmarga tónleika á Norðurlandi. Þetta verkefni endaði svo með því að öll lögin voru tekin upp síðasta haust og hljómdiskur gefinn út fyrir jól.

Lögin við ljóð Davíðs sem við flytjum að þessu sinni eru þau sem sérstaklega voru samin fyrir kórinn og völdu tónskáldin sjálf ljóðin og í sumum tilfellum var sama ljóðið valið tvisvar“

 

Nýjar fréttir