Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra úthlutaði hinn 1. júní sl. rúmlega 28 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til alls 13 verkefna. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Hæstu styrkirnir námu fjórum milljónum króna og hlutu tvö verkefni styrk að þeirri upphæð. Sigurhæðir, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fékk fjórar milljónir króna til þess að þróa faglegan hluta meðferðarstarfs Sigurhæða.
Öruggur vettvangur í skjóli fagfólks
Sigurhæðir er úrræði fyrir konur á Suðurlandi sem eru eða hafa verið þolendur ofbeldis, hvort sem það er kynferðislegt, andlegt, líkamlegt eða tilfinningalegt. Innan Sigurhæða er þeim boðinn öruggur vettvangur og aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum sem eiga rætur í ofbeldinu. Sigurhæðir eru staðsettar að Skólavöllum 1 á Selfossi og hófst starfsemin 22. mars sl. Frá þeim tíma hafa alls um 40 konur leitað til Sigurhæða.
Frumkvæðið að stofnun Sigurhæða tóku Soroptimistasystur á Suðurlandi, en samstarfsaðilar í verkefninu eru Heilbrigðisstofnun Suðurlands, lögreglan á Suðurlandi, öll sunnlensk sveitarfélög, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvennaráðgjöfin. Auk þess að bjóða konum sérhæfða meðferð eru markmið Sigurhæða einnig að skapa þessum samstarfsaðilum vettvang til að efla með sér samstarf og samhæfingu í þjónustunni við þennan hóp skjólstæðinga og í þriðja lagi að auka vitund og þekkingu á kynbundnu ofbeldi meðal almennings, fagaðila og samstarfsaðila í verkefninu með þjálfun og fræðslu.
Sérhæfður stuðningur í höndum fagfólks
Þrír sérhæfðir meðferðaraðilar hafa verið ráðnir til Sigurhæða. Elísabet Lorange listmeðferðarfræðingur, Helga Jóna Jónsdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur og Jóhanna Kristín Jónsdóttir sálfræðingur. Elísabet og Helga Jóna eru reynslumiklir meðferðaraðilar sem sjá um forviðtöl og stuðningsviðtöl ásamt því að sinna hópmeðferðarstarfi Sigurhæða. Jóhanna Kristín er almennur sálfræðingur með viðbótarmenntun á sviði meðferðar og hefur sérhæfða þjálfun og reynslu í EMDR áfallameðferð. Soroptimistasystur manna vaktir sem sinna móttöku, tímapöntunum og síma, en koma að öðru leyti ekkert að málefnum skjólstæðinga. Hafa þær allar sótt undirbúningsnámskeið vegna starfa sinna ásamt því að undirrita þagnareið.
Innan Sigurhæða er boðið upp á einstaklingsviðtöl, stuðningsviðtöl, ráðgjöf, hópmeðferðarstarf, viðtöl við lögreglu og ráðgjöf frá Kvennaráðgjöfinni um lagaleg málefni. Í hópmeðferðarstarfinu hittist hver hópur 10 sinnum og er meðal annars beitt aðferðum listmeðferðar í hópastarfinu. EMDR áfallameðferðin er gagnreynd sálfræðimeðferð sem er ætluð skjólstæðingum Sigurhæða á síðari stigum meðferðar. Með EMDR meðferð er hægt að meðhöndla hvoru tveggja, nýleg eða eldri áföll skjólstæðinga og ekki er gerð krafa um greiningu áfallastreitu til að meðferð geti hafist. Í EMDR er skjólstæðingur leiddur með ábyrgum hætti í gegnum þá erfiðu upplifun sem áfallið felur í sér, hvort sem um eitt einstakt tilvik er að ræða, eða upplifun erfiðrar lífreynslu sem hefur varað yfir tíma. Skilgreining á áfalli miðast við alvarlega streituvaldandi lífsreynslu sem hefur ógnað lífi, heilsu og/eða sjálfsmynd viðkomandi og áfallameðferðar er þörf ef skjólstæðingur upplifir að reynslan fylgi honum og hann nái ekki að komast yfir hana af sjálfsdáðum.
Sigurhæðir er fyrsta úrræðið á sviði þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Íslandi sem byggir á EMDR áfallameðferð og er nýmælið í þjónustunni við þennan hóp því einkum fólgið í henni.
Í Sigurhæðum er lögð áhersla á persónulega nálgun þar sem konur fá tækifæri að vinna á eigin hraða og út frá eigin forsendum. Öll þjónusta er gjaldfrjáls og nafnleyndar er gætt. Sigurhæðir er fyrsta og hingað til eina sérhæfða úrræðið á þessu sviði sem starfrækt er á Suðurlandi.
Frekari upplýsingar má nálgast á sigurhaedir.is og í síma 834 5566.