-10.5 C
Selfoss

„Upplifun sem ég gleymi aldrei!“

Vinsælar fréttir

Styrkleikarnir fara fram á Selfossi dagana 4.-5. september en um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem lítur dagsins ljós á Íslandi í fyrsta sinn. Á ensku heitir viðburðurinn Relay for Life og var fyrst haldinn í Bandaríkjunum árið 1985. Núna eru yfir 30 lönd með yfir 4000 viðburði árlega út um allan heim.

Eva Íris Eyjólfsdóttir er verkefnisstjóri Styrkleikana en hún tók þátt í skipulagningu viðburðarins í Noregi árin 2018 og 2019. Hafði sú reynsla djúpstæð áhrif á Evu. „Þetta var ótrúleg upplifun sem ég gleymi aldrei,“ segir Eva og heldur áfram. „Þetta er sólarhringsviðburður sem er táknrænn á þann hátt að þau sem greinast með krabbamein þurfa að glíma við sinn sjúkdóm allan sólarhringinn, það er aldrei frí.“ Styrkleikarnir fara fram í nágrenni við íþróttavelli eða útivistarsvæði og þar er skapað sérstaklega fjölskylduvænt umhverfi. „Já, það er alltaf eitthvað um að vera. Þátttakendur taka þátt sem lið, þannig þetta er kjörið fyrir vinnustaði, fyrir íþróttafélög, saumaklúbba eða vinahópa til að taka þátt og sýna samstöðu. Einstaklingar geta að sjálfsögðu líka skráð sig og eru þá í Landsliðinu.“

Einstaklingarnir í liðunum skipta með sér sólarhringum og gæta þess að einhver er á hreyfingu með keflið allan tímann. „Þetta er þó ekki keppni, heldur vettvangur þar sem hægt er að sýna samstöðu“ segir Eva. „Hver sem er getur gengið á sínum hraða. Á milli þess sem fólk tekur sína vakt er hægt að taka þátt í alls konar gleði og glensi, ævinlega er eitthvað gott að borða og allir ættu að finna eitthvað við hæfi.“ Þegar tekur að rökkva er sérstök ljósaathöfn sem er tilfinningaríkt sjónarspil sem hefur sérstaka þýðingu fyrir þátttakendur í Styrkleikunum. Þá er kveikt á kertum sem eru sett í hvíta poka og á pokana má sjá hjartnæm skilaboð til ástvina sem hafa glímt við krabbamein, til ástvina sem hafa jafnvel fallið frá eftir krabbamein og auðvitað allra aðstandenda og heilbrigðisstarfsmanna. „Það er einstök stund og á margan hátt hápunktur viðburðarins. Þar finnurðu samstöðu og samkennd sem fyrirfinnst hvergi annars staðar.“

Eva leitar nú að sjálfboðaliðum og þátttakendum á Suðurlandi og víðar. Krabbameinsfélag Árnessýslu er lykilsamstarfsaðili í skipulagningu viðburðarins og ætlar félagið að standa fyrir kynningarfundi í húsakynnum sínum við Eyrarveg 31, miðvikudagskvöldið 30. júní kl. 17. Þar verður heitt á könnunni og eru allir Sunnlendingar sérstaklega velkomnir. „Já og bara allir,“ segir Eva. „Okkur fannst Selfoss vera kjörinn staður fyrir Styrkleikana og við erum himinlifandi að bæjarfélagið hafi tekið okkur opnum örmum.“

Á www.styrkleikarnir.is má finna nánari upplýsingar.

Nýjar fréttir