Bréf frá Rakel Sveins

Ég er hreyfihömluð kona en mikil félagsvera. Ég hef mjög gaman að því að hitta fólk og næ að gera flest allt sem mig langar til. Það skiptir mig miklu máli að fara út i búð sjálf, það er ákveðin valdefling sem felst í því fyrir mig persónulega. Nú er staðan sú í Krónunni og Rúmfatalagernum hér á Selfossi að þar er enginn hjólastóll. Mér hefur verið tjáð að ástæðan fyrir því er að krakkar hafi eyðilagt hann. Nú hef ég margoft óskað eftir því að nýr sé fenginn í stað þess sem eyðilagðist en vikurnar og mánuðirnir líða og ekkert gerist. Búðarferðir fyrir mig núna þýða kvöl og pína, nú þarf ég að hanga á kerrunni á meðan ég versla og er mjög verkjuð í fótunum nokkra daga eftir hverja búðarferð. Ástæðan fyrir að ég skrifa þetta hingað er að það eru fleiri en ég sem eru hreyfihamlaðir og þurfa nauðsynlega á hjólastól að halda í búðum. Við erum fólk sem viljum versla sjálf og höfum mjög gaman að því að hitta fólk í búðinni og geta valið það sem okkur langar í að borða sjónrænt. Mig langar að biðla til verslunarstjóranna í þessum búðum um að fá nýjan hjólastól og biðja foreldra barna um að virða stólana og ekki leyfa börnum að leika í þeim því þeir gætu skemmst og það hefur þær afleiðingar að fólk eins og ég á erfitt með að fara í búð.

Virðingafyllst,
Rakel Sveinsdóttir