2.8 C
Selfoss

Menningargöngur eldri borgara í Árborg vinsælar

Vinsælar fréttir

Sigfús Kristinsson segir frá á Bankaveginum. Mynd: GPP. 

Árið 2020 hófst skemmtilegt verkefni sem kallast Menningarganga eldri borgara í Árborg. Þá bregða eldri borgarar undir sig betri fætinum og ganga um þéttbýliskjarna sveitarfélagsins. Fyrsta gangan fór fram á Selfossi í ágúst 2020. Þar fór Kjartan Björnsson, rakari og bæjarfulltrúi fremstur í flokki sem göngustjóri. Gengið var um Grænuvelli og Fagurgerði undir leiðsögn Ólafs Jónssonar í Singasteini. Þá tók Sigfús Kristinsson á móti hópnum við Bankaveginn og sagði sögu húsanna. Á Hlaðavöllum var Sigurður Grétarsson með frásögn ásamt því að endað var í kaffisopa að göngu lokinni.

Þuríðarbúðin og samfélagið á Stokkseyri

Bryggjuhátíðin á Stokkseyri 2021 fór fram í blíðskaparveðri. Samhliða henni var farin önnur menningargangan í röðinni. Hist var við Ásgeirsbúð, á planinu fyrir framan Menningarverstöðina, áður frystihúsið á Stokkseyri. Á móti hópnum tók Þórður Guðmundsson, eða Tóti eins og hann er kallaður. Tóti gekk með hópnum vestur að Gimli, félagsheimilinu niður að höfn og þaðan austur þorpið alla leið að Þuríðarbúð. Á leiðinni sagði Tóti frá því sem fyrir augu bar og lýsti því hvernig þróunin hafði verið í samfélaginu, meðal annars sjósókn og útræði frá Stokkseyri gegnum tíðina.

Eyrarbakki – Húsið með meiru

Í síðustu viku bauð Guðmundur Ármann, íbúi á Eyrarbakka fólk velkomið í Húsið, en Guðmundur er einn af þeim síðustu sem bjó í Húsinu. Hann sagði göngufólki frá veru sinni og fjölskyldu sinnar í húsinu. Þá sagði hann frá því sem gert var í húsinu til viðgerða og uppbyggingar. Þá fór Guðmundur að Vesturbúðarhól og sagði lauslega frá þeirri sögu, en eins og alkunna er var húsið tekið niður og timbrið nýtt annarsstaðar. Að lokum var endað í gamla Alpan-húsinu sem hefur fengið nýtt hlutverk en það hýsir nú starfsemi Byggðasafns Árnesinga, m.a. stórmunadeildina. Þar tók Lýður Pálsson við hlutverki sögumanns og sagði frá uppbyggingunni í húsinu og skipulagi þess. Það var augljóst að vandað hefur verið til verka í hvívetna og húsnæðið allt hið glæsilegasta.

Miðbærinn næstur á dagskrá

Næst verður farin ferð um nýja miðbæinn á Selfossi þar sem Leó Árnason verður með leiðsögn. Fjallað verður um sögu fyrirmyndanna sem húsin eru reist eftir. Gangan endar á sýningu í kjallara Gamla Mjólkurbúsins. Gangan verður auglýst síðar.-gpp

Nýjar fréttir