-4.2 C
Selfoss

Amma og afi eru ekki lengur með gervitennur

Vinsælar fréttir

Sú var tíðin að „amma og afi“ voru almennt með hefðbundnar gervitennur. Í dag eru æ fleiri þeirra sem eru komnir af léttasta skeiðinu með sínar eigin tennur, annað hvort að hluta til eða í heild. Það er gæfuspor að tannheilsu þjóðarinnar fer batnandi, fleiri halda eigin tönnum í gegnum lífið. En vandamálin sem því fylgja geta verið margslungin.

Samhliða hækkandi aldri glímir fólk oft við heilsubresti, sjúkdóma og ýmis tengd vandamál. Munnþurrkur er algengt vandamál, honum fylgir aukin tannskemmdahætta. Og þó svo einstaklingurinn sé almennt heilsuhraustur skerðist oft færni til daglegra athafna með aldrinum. Þ.m.t. getan til að hreinsa tennurnar.

Á hjúkrunarheimili

Staðan er einna verst hjá einsetufólki og þeim sem dveljast langdvölum á hjúkrunarheimilum. Hér áður fyrr var yfirleitt látið nægja að starfsfólk stofnana skrúbbaði gervitennurnar undir vatnskrananum. Tennurnar sváfu værum blundi í glasi á náttborðinu og eina ógnin sem stafaði að þeim var að rugla reitum við næsta náttborð. Hjá tenntum einstaklingi er vitanlega ekki hægt að fjarlægja tennurnar tímabundið úr munninum til hreinsunar. Það þarf að gerast í munni.
Það er ekki öfundsvert hlutverk fyrir starfsfólkið að sjá um þrif á tönnum annarra. Það er tilfinning mín (o.fl. tannlækna) að starfsfólk hafi almennt litla þjálfun í umhirðu tanna skjólstæðinga sinna. Sumir vita hreinlega ekki hvernig einstaklingarnir sem þeir annast eru tenntir. Er fólkið með eigin tennur eða heilgóma (alveg tannlaust), með tannplanta eða úrtakanlega parta? Umhirðan er mjög ólík eftir aðstæðunum. Ég lái starfsfólkinu þó ekki, þessi mál hafa ekki fengið nægilega athygli til þessa.

Almennt heilsufar viðkomandi

Ástand þess sem dvelst á stofnuninni skiptir miklu máli. Ef einstaklingurinn glímir t.d. við heilabilun (t.a.m. alzheimer) þá er óvíst að viðkomandi sé samstarfsfús með að láta „ókunnugan“ bursta tennurnar a.m.k. tvisvar á dag. Einna verst staddir eru þeir sem eiga erfitt með að tjá sig (t.d. eftir heilablóðfall). Getur verið að hann „Jón gamli“, sem er alltaf svo órólegur að það þarf að gefa honum tvær svefntöflur/róandi í stað einnar, sé hreinlega bara með tannpínu sem hann getur ekki sagt frá?

Tannheilsa viðkomandi

Heilbrigðar, ósnertar tennur standa mun betur af sér storminn sem getur geisað á elliárunum heldur en mikið viðgerðar tennur. Viðgerðum tönnum er mun hættara við endurskemmdum, brotum og sýkingum. Hvernig er ástandið á tönnunum hjá elstu kynslóðunum okkar í dag? Oftar en ekki eru margar tennur mikið viðgerðar. Og útlitið er ekki mikið bjartara hjá næstu kynslóð í röðinni. Þetta eru hópar með tennur sem þurfa reglulegt viðhald og fyrirmyndar umhirðu ef ekki á að fara illa. Sumt fólk leggst inn á stofnanir með mörg, uppsöfnuð vandamál til staðar. Vandamálin aukast síðan til muna inni á stofnuninni.

Að komast til tannlæknis

Það getur verið mikið mál að koma þessu fólki til tannlæknis. Þeir verst stöddu fara hreinlega ekki. Ekki nema þeir séu svo lánsamir að eiga aðstandendur sem hafa vit fyrir þeim. Og hvernig gengur svo þegar komið er inn á tannlæknastofuna? Fær tannlæknirinn við einhverju ráðið?
Stundum er því fleygt fram hvort ekki sé ráð að fjarlægja bara allar eftirstandandi tennur (jafnvel undir svæfingu) og fá hefðbundna heilgóma/gervitennur fyrir þessa einstaklinga. Jú, það myndi í einhverjum tilfellum leysa tannvandamálin að fjarlægja eftirstandandi tennur. En margir þyrftu einfaldlega stoppa þar. Það þarf mikla samvinnu til að smíða gervitennur. Og það þarf mikla aðlögunargetu til þess að læra að nota gervitennur. Hjá þessum hópi er slík hæfni oft ekki lengur til staðar og viðkomandi endar „á felgunni“, alveg tannlaus.

Tillögur að úrbótum

– Reyna að halda tönnum heilum og ósnertum. Sinna viðgerðum áður en vandamálin stækka. Reglulegt eftirlit hjá tannlækni eftir því sem aðstæður leyfa.
– Stórminnka sykurneyslu, en sætindi og djúsar tíðkast víða á stofnunum.
– Fyrirmyndar munnhirða. Rafmagnsbursti getur hjálpað. Tannþráður og millitannaburstar líka mikilvægir. Háskammta flúortannkrem.
– „Núllstilla“ fólk sem er lagt inn á stofnanir, leysa vandamál sem eru til staðar við innlagningu.
– Starfsfólk stofnana þarf markvissari kennslu í umhirðu tanna og tanngerva. Skipa stöðu „tannliða“ (sbr. sjúkraliða) eða tannfræðings, aðila sem annast munnhirðu á stofnunum.

Gerum fólki kleift að eldast með reisn.

Sverrir Örn Hlöðversson
tannlæknir

 

 

Nýjar fréttir