-6.3 C
Selfoss

Finnst alveg vanta að samdar séu sögur og söngvar um nafnið mitt

Vinsælar fréttir

Guðný Sigurðardóttir er Hafnfirðingur eða réttara sagt Gaflari. Hún er 58 ára gömul, menntuð hárgreiðslukona en starfar núna sem kirkjuvörður í Selfosskirkju. Hún er gift Halldóri Ágústssyni Morthens málarameistara og á þrjú börn, Elísu Björk, Hjalta Geir og Hrefnu. Guðný segist vera forrík af ömmubörnunum en þau eru núna átta talsins.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er í augnablikinu ekki mikið að lesa. En er þó með bókina Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar á náttborðinu minu. Hún er eftir Davíð nokkurn Oddsson og keypti ég mér hana aðallega útaf heiti bókarinnar. Mér finnst hún fyndin og ekki veitir af skemmtiefni á þessum covid tímum. Finnst alveg vanta að samdar séu sögur og söngvar um nafnið mitt. Alltaf samið um Maríur, Gunnur, Stínur og þær skvísur.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Skáldsögur, rómantík og spenna í bland. En þegar ég var unglingur þótti mér mjög gaman að lesa Kennaratalið og Bergsættina (pínu nörd í ættfræðinni). En ég viðurkenni alveg að ég las rosalega mikið af Rauðu ástarsögunum hér áður fyrr og ef ég fer í sólarlandaferð þykir mér mjög gott að taka þannig bækur með mér. Og ligg þá og flatmaga lesandi í sólinni og vitandi af því að sagan endar pottþétt vel og fallega. Einnig hef ég gaman af að lesa sjálfsævisögur eftir þekkta Íslendinga. Svo má ég ekki gleyma allri seríunni um Ísfólkið. Ég er að lágmarki búin að lesa þær allar tvisvar sinnum. Þvílíkt meistaraverk.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Ég á margar uppáhalds barnabækur og ber þá fyrst að nefna bækurnar sem móðurafi minn Páll Theódór Sveinsson samdi en rithöfundanafn hans var Dóri Jóns. Eftir hann liggja fjórar barnabækur. Ég man ekki hvort foreldrar mínir lásu fyrir mig en ég er alveg viss um að þau lásu/sungu fyrir mig upp úr Vísnabókinni því þegar ég var sirka fimm ára þá hélt pabbi minn að ég væri fluglæs. Það var alveg sama hvar bókin var opnuð, ég gat alltaf sungið allt sem þar stóð. Líklega gæti gott sjónminni verið ástæðan. Pollýönnu bækurnar eftir Eleanor H. Porter las ég aftur og aftur og sérstaklega fyrri bókina. Sá höfundur hefur nú kennt mér margt og á ég honum mikið að þakka. Dásamleg saga um það hvernig gleði og jákvætt hugarfar geta unnið bug á erfiðleikum lífsins. Kapitola var líka mögnuð bók. En ég reyndi að hlusta á hana í hljóðbók fyrir sirka ári og gafst alveg upp á því. Svo fékk ég alltaf einhverja bók í jólagjöf og man ég sérstaklega eftir Tamar og Tótu eftir Berit Brænne. Þá las ég allar Öddu bækurnar og svo las ég þær aftur og aftur. Að lokum get ég nefnt Ævintýrabækurnar sem voru ferlega skemmtilegar ásamt Fimm fræknu. Vá ég gæti líklega talið upp fullt af fleiri bókum. Ég las greinilega miklu meira hér áður fyrr en ég geri núna.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lestrarvenjur mínar eru akkúrat engar. Ég „les“ núna í seinni tíð frekar hljóðbækur og finnst mér það alveg frábær uppfinning. Og eins og ég sagði hér fyrr þá les ég helst á ferðalögum.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Afi Páll er auðvitað uppáhalds höfundur minn en rithöfundanafn hans var Dóri Jóns. Bækurnar sem hann skrifaði voru Kátir voru krakkarVaskir drengirHafið hugann dregur og Áslákur í álögum. En einnig þýddi afi ansi marga reifara um Basil fursti. En hann var víst ekki hreykinn af þeirri vinnu sinni og er því ókunnugur þýðandi að þeim. Honum fannst ekki við hæfi að barnaskólakennari og yfirkennari væri að setja nafn sitt við þannig bókmenntir. Ég hef verið að safna þessum reifurum saman á síðustu árum en núna er búið að endurútgefa nokkra af þeim.

Hefur bók einhverntímann rænt þig svefni?

Já alveg oft og í augnablikinu man ég eftir bókunum hennar Ásdísar Höllu Tvísaga og Hornauga. Þær rændu mig kannski ekki svefni en mjög nálægt því. Kannski rændu bækurnar hennar Guðrúnar Helgadóttur mig ekki svefni en þær gat ég lesið aftur og aftur. Og enn get ég skellihlegið af sögunum hennar. Hún er líklega uppáhalds rithöfundurinn minn á eftir afa. Og þegar ég las Kapitolu fyrst átti ég mjög erfitt með að leggja hana frá mér.

En að lokum Guðný, hvenig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Pottþétt væri það um eitthvað yfirmáta fallegt og í sögunni yrði rómantík og spenna. Og pottþétt enginn vondur í mínum bókum. Kannski bara nýtt framhald af Pollýönnu.

 

____________________________________________

Lestrarhestur númer 103. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

 

Nýjar fréttir