-7.3 C
Selfoss

Aðventuhugleiðing frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Vinsælar fréttir

Á síðustu mánuðum höfum við öll staðið frammi fyrir miklum samfélagslegum breytingum vegna baráttunnar við þann vágest sem kom til sögunnar í upphafi árs. Takmarkanir í samfélaginu hafa reynst mörgum einstaklingum erfiðar. Þá hafa margir einangrast, misst vinnunna og jafnvel ástvini. Þessi staðreynd blasir við okkur í dag og því er svo mikilvægt að við hlúum hvert að öðru og töpum ekki gleði og hamingju.

Aðventan er gengin í garð og undirbúningur hátíðanna í hámarki. Jólin eru tími ljóss og friðar, en vegna takmarkana í samfélaginu verður hátíðin hjá flestum okkar frábrugðin því sem við áður þekkjum, eins og svo margt annað á þessu ári. Við verðum því að finna okkur nýjar leiðir til að gleðjast saman. Gleðin felst í svo mörgum hlutum, jafnt litlum sem stórum. Jólaljósin sem nú prýða svo marga glugga og jólasöngvar sem óma á öldum ljósvakans minna okkur á gleðina og hvað það er gott að hlúa að dýrmætum vináttu- og fjölskylduböndum.

Á líðandi ári hafa víða orðið talsverðar breytingar á starfsemi fyrirtækja og stofnana. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ekki undanskilin í þeim efnum og stendur stofnunin frammi fyrir nýjum áskorunum á degi hverjum. Ljóst er að af öllum áskorunum og vandamálum má draga lærdóm og vænta má að útkoman leiði jafnvel til nýrra lausna og tækifæra. Umræðan um bóluefni gegn COVID 19  gefur okkur von í hjarta um að barátta okkar við hinn skæða vágest taki að lokum enda. Við gleðjumst yfir þeirri tilhugsun að öðlast það frelsi sem við öll þráum í opnara samfélagi. Þrátt fyrir að við erum farin að sjá ljósið verðum við að muna líkt og á öðrum tímum að vanda okkur og huga vel að persónulegum sóttvörnum.Við megum ekki sofna á verðinum og það er gríðarlega mikilvægt að við verndum viðkvæma hópa fyrir veirunni skæðu.

Umhyggja og velvild hefur svo sannarlega komið sér vel í starfsemi Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hafa margir velunnarar sent stofnuninni fallegar hugsanir og gjafir bæði til starfsmanna og sjúklinga. Þessi framlög eru dýrmæt og hjálpa sannarlega til við að létta undir því álagi sem stofnunin glímir við. Er ég orðlaus yfir þessum hlýhug og manni hlýnar um hjartarætur að finna þessa góðu strauma.

Að lokum vil ég minna okkur öll á að vindsemd og umhyggja kosta lítið en gefa svo mikið og er ég sannfærð um að saman náum við fyrri styrk sem samfélag aftur.

Njótum hátíðarinnar og nýtum okkur tæknina til að gleðjast saman.

Með von um gleði og frið yfir hátíðarnar.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

 

 

Nýjar fréttir