-0.5 C
Selfoss

Vel heppnuð byssusýning hjá Veiðisafninu

Vinsælar fréttir

Í veiðisafninu var fjöldi fólks kominn saman til þess að gera sér glaðan dag. Það er mikil upplifun að koma í safnið en þar má sjá villt dýr hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið stoppuð upp. Það er áhugavert að standa augliti til auglitis við ljónapar og sjá hve stór þau í raun og veru eru. Við tókum forsprakka safnsins tali og spurðum út í  safnið, ásóknina og hátíðina.

Sýningarnar aldrei eins ár frá ári

Eigandi veiðisafnsins er Páll Reynisson. Hann er mikill veiðimaður sjálfur og á fjölda uppstoppaðra dýra á safninu. Hvernig er ásóknin búin að vera? „Það hefur alltaf verið mikil ásókn á byssusýningar hjá Veiðisafninu. Ég hef haldið þetta alveg frá opnun þar til í fyrra. Það var þó reynt í tvígang en við urðum frá að hverfa með það.“ Það var ekki annað að sjá en að Páli væri létt með að geta loksins haldið almennilega sýningu og ekki létu gestirnir sig vanta enda heilmikið að sjá.

„Sýningarnar eru séruppsettar á hverju ári og aldrei eins. Fólk getur gengið að því vísu og veit það að það er ekki það sama og í fyrra. Í ár eru þeir frá Markviss á Blönduósi með stóran hluta af þrjátíu ára afmælissýningu sem þeir settu upp fyrir nokkrum árum. Þá er hér Ingólfur í Vesturröst með fullt af sínu dóti og Bóbó kom frá Selfossi með nokkra hnífa að sýna okkur líka.“

Fer brattur inn í sumarið

Aðspurður um hvernig faraldurinn hafi farið í safnið segist Páll síst kvarta því það hafi hann aldrei gert. „Febrúar hefur verði mjög góður hér og þetta spyrst út á meðal fólks sem hingað hefur komið að skoða.“ Þá segist Páll fara brattur inn í sumarið og eiga von á því að fjöldi gesta leggi leið sína að skoða Veiðisafnið á Stokkseyri. Blaðamaður getur vottað að þar er margt að sjá og merkilegt og þeir sem hafa áhuga á veiðum og villtum dýrum geti fundið margt að skoða og líta á.

Nýjar fréttir