-4.2 C
Selfoss

Samfella í skóla og íþróttastarfi í Rangárþingi eystra

Vinsælar fréttir

Gríðarlegur áhugi er á meðal ungmenna á íþróttum og tómstundarstarfi í Rangárþingi eystra. Samfella í skóla-, íþrótta-, tómstundarstafi er lykilástæða fyrir því.  Samfellustarfið gengur út á að börn og unglingar nái að komast á æfingar innan innan ramma skólaaksturs og þannig að sem flest geti stundað sína íþrótt/tómstund áður en skólabíll fer heim.

Mikil þátttaka er meðal barna í samfellusstarfinu og er íþróttahúsið fullnýtt undir æfingar íþróttafélagana nánast alla daga og langt fram á kvöld. Auk íþrótta er hefur verið boðið upp á leiklist, leirlist, gler og list, smíði og fleira þar sem reynt er að höfða til þeirra barna sem ekki hafa áhuga á íþróttum eða vilja meiri fjölbreyttni.

Um helmingur þeirra barna sem stunda samfellustarfið býr í dreifbýlinu og nýtir sér skólaakstur. Boðið er upp á skólaakstur alla daga vikunnar kl. 13:20 og 15:00 fyrir utan föstudaga þar sem aðeins er í boði ferð kl. 12.00. Vegna samfellustarfsins eru svo  sérstakar auka ferðir þrjá daga vikunnar kl. 17:00 og henta þessar ferðir henta þeim börnum sem eru í samfellu starfi sérstaklega vel.

Íþróttafélagið Dímon býður upp á fjölmargar íþróttagreinar í samfellustarfinu ma.l borðtennis, blak, fimleika, körfubolta, sund, frjálsar íþróttir og fleira. Kostnaður hvers iðkenda er í algjöru lágmarki og aðeins er greitt eitt gjald og getur barnið stundar allar þær greinar sem Dímon hefur upp á að bjóða. Flestar æfingar hjá Dímon rúmast innan samfellunnar en þó eru ekki alveg allar.

Þeir krakkar sem hafa áhuga á knattspyrnu geta stundað æfingar með KFR frá 4-15 ára aldurs í ölllum flokkum karla og kvenna.  Hjá KFR eru um 250 iðkendur og þar 180 Rangárþingi eystra. Ekki rúmast þó allar knattspyrnuæfingarnar innan samfellunnar en reynt að að hafa amk eina æfingu í viku hjá hverjum flokki innan hennar.

Tónlistarstarf er einnig gríðarlega mikilvægt í Rangárþingi eystra. Hér hjá okkur er rekinn öflugur tónlistarskóli með frábæru starfsfólki og eru um 100 nemdur í tónlisttarnámi í Rangárþingi eystra.  Starfsfólk tónlistarskólans á líka stóran þátt í samfellustarfinu enda er ávallt reynt að finna tíma fyrir hvern nemanda sem hentar hverjum og einum.

Mikill metnaður er lagður í menntun þjalfara hjá Dímon og KFR. Þjálfurum gefst kostur á að fara á þjálfaranámskeið á kostnað íþróttafélaganna og eins eru haldnir þjálfarafundir reglulega þar sem farið er yfir hvernig gengur hjá hverjum og einum.  Alltaf er reynt að finna þjálfara við hæfi með hverjum aldursflokki og er reynt að skapa þeim þannig umhverfi að þeir geti unnið sitt starf sem best.

Nýlega fékkst styrkur um sérstök úrræði fyrir börn sem ekki eru í neinum íþróttum og tómstundarstarfi og unnið er að samningi við leiðbenendur um vinnu með þau ungmenni/börn. Hlutverk þeirra verður að fræða ungmennin um heilbrigðan lífsstíl, hollustu og hreyfingu.

Yngstu börnin okkar nota Skólaskjólið eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Þar taka á móti börnum starfsmenn með mikla reynslu og þekkingu á þörfum þeirra. Í Skólaskjólinu er skipulög starfsemi innan sem utan dyra fyrir börnin og starfsmennirnir hjálpa svo til og aðstoða við að minna börnin á að fara í sína íþrótt og hjálpa þeim út.

Þegar í íþróttahúsið er komið taka starfsmenn íþróttahússins svo við þeim og fylgja þeim í klefa og aðstoða þau þar. Í lok íþróttatímans hjálpast svo allir að við að koma koma börnum á öruggan hátt aftur í Skólaskjólið og í skólabíla. Bílsstjórnarnir bíða svo oftast þolinmóðir eftir börnunum, sem stundum gleyma sér aðeins í íþróttahúsinu.

Félagmiðstöðvastarf er ekki lögbundið en í Rangárþingi eystra er félagsmiðstöðin Tvisurinn opinn  alla daga vikunnar til kl. 17:00 og því alltaf opin sem á meðan samfellustafið stendur yfir og stendur öllum börnum af mið- og elsta stigi til boða. Nemendur hafa því alltaf afdrep þar á meðan beðið er eftir æfingum eða á milli æfinga. Aðstaðan þar er öll til fyrirmyndar og starfsfólkið gott. Þar koma krakkarnir gjarnan, borða nestið sitt, spila, spjalla eða bara að hanga.

Samfellustarfið hefur gengið mjög vel síðustu ár og samstarf milli skóla og íþróttafélaga hefur gengið að mestu leyti hnökralaust sem og öll skipulagning. Reynt er að vinna stundatöflur fyrir samfellustafið þannig að tímar skarist ekki og ekki sé sitthvor æfingin fyrir sama aldur á sama tíma. Oft er erfitt að láta allt smella saman út frá óskum þjálfara, lausra tíma í íþróttahúsi og þörfum barnanna en oftast gengur þetta að lokum.

Ekki eru um neinar hvatagreiðslur til foreldra vegna íþrótta- og/eða tómstunda að ræða hjá okkur en sveitarfélaigð Rangárþing eystra styður við og styrkir íþróttafélögin bæði með búnaði og peningagreiðslum svo að íþróttastarfið gangi sem best og allir þessir möguleikar eru í boði fyrir börnin.

Með þessum stutta pistli langaði mig bara rétt að gefa innsýn í hversu vel að staðið að íþrótta- og æskulýðstarfi meðal barna og unglinga í Rangárþingi eystra og hversu vel er hægt að gera ef allir leggjast á eitt til að gera samfellustarfið mögulegt.

Ólafur Örn Oddsson

Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Rangárþings eystra.

 

 

Nýjar fréttir