1.7 C
Selfoss

Það er komið sumar, eða er það?

Vinsælar fréttir

Það er komið sumar, sól í heiði skín. Vetur burtu farinn. Tilveran er fín segir í laginu “Það er komið sumar” eftir Mannkorn.

Sonur minn sem er fimm ára var búin að telja niður dagana í  sumardaginn fyrsta. Hann hlakkaði til að sjá loksins vinkonu sína sólina. Geta farið út á stuttbuxum og jafnvel stuttermabol ef veðrið yrði gott. Nokkrum dögum fyrir sumardaginn fyrsta snjóaði og vaknaði hann við þann vonda draum að það var alhvítt að morgni. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að svona virkaði íslenskt veður og hann yrði bara að bíða og sjá. Það væri nú mjög líklegt að þessi snjór yrði horfinn þegar hann kæmi heim úr leikskólanum þennan daginn. Þetta myndi allt saman reddast. Yrði bara pínu spennandi. Það reyndist svo vera og ákvað drengurinn að halda í vonina um gott sumar.

Að morgni sumardagsins fyrsta vaknaði hann spenntur til að fá sumargjöfina sína. Þegar hann var búin að opna hana spurði hann fljótlega hvort hann mætti fara út í fótbolta á stuttbuxum og bol. Ég sagði við hann að nú þyrfti ég að útskýra fyrir honum enn og aftur hvernig íslenkt sumar virkaði.

Það væri nefnilega þannig að sumarið á Íslandi kæmi áður en grasið yrði grænt, áður en laufin myndu springa út og áður en það væri orðið heitt úti. Stundum snjóaði meira að segja á sumardaginn fyrsta en góðu fréttinar væru þær að það væri nú ekki þannig í dag og því væri þetta góður sumardagurinn fyrsti.

Þegar ég hlustaði á sjálfa mig útskýra fyrir fimm ára barni mínu hvernig sumardagurinn fyrsti virkaði þá áttaði ég mig á því að það er kannski ekkert skrítið að íslenska þjóðin haldi fast í frasann “Þetta reddast”. Við erum alin upp við það frá unga aldri að sumarið sé kalt, veðrið breytist ef við við bíðum í nokkrar sekúndur. Við látum það heldur ekki á okkur fá eð jörðin hristist og ef það fer að gjósa hlaupum við ekki frá eldgosinu heldur að því til að taka af okkur mynd um leið og tækifæri gefst til.

Ég skil betur hvernig erlendum vinum mínum líður þegar ég er að reyna að útskýra fyrir þeim þessa íslensku hugsun. Stundum hrissta þeir höfðið og skilja ekki hvernig við þorum að búa á þessu landi.

Kæri lesandi. Er það ekki “þetta reddast” hugarfarið sem hefur komið okkur í gegnum erfiða tíma. Er það ekki þetta víkingablóð sem hefur gert það að verkum að íslendingar eru ennþá til. Er það ekki út af “þessari reddast” hugsun sem fólk lifði af vosbúð og kulda og búa nú flestir hverjum í vel heitum húsum og takast á við heimsfaraldur með góðum skammti af hugarró?

Ef velti því fyrir mér hvort ég hefði kannski átt að leyfa syni mínum að fara út á stuttbuxum og bol og skrá mig sjálf á námskeið í Kuldaþjálfun á sumardaginn fyrsta?

Ég veit það ekki, en það eitt veit ég að veturinn er farinn. Það styttist í hjarðónæmi. Sumarið kemur. Fjallgöngur bíða mín. Grasið fer að grænka. Laufin fara að springa út og þegar það gerist þá veit ég að sumarið er komið fyrir alvöru. Ég mun trúa því að þetta verði besta sumar sem við höfum upplifað og veðrið muni verða frábært. Það er kannski gott að veðurminni okkar íslendinga sé að hluta til eins og hjá gullfiskum. Annars værum við öll flutt til Tenerife.

Gleðilegt sumar

Gunna Stella

Hlaðvarp: Einfaldara líf

Nánari upplýsingar www.gunnastella.is

Nýjar fréttir