-6.9 C
Selfoss

Hallarekstur Árborgar nemur tæpum 600 milljónum

Vinsælar fréttir

Halli á samstæðureikningi Sveitarfélagsins Árborgar árið 2020 er alls 578 milljónir króna. Hægt er að rekja að lágmarki 460 m.kr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 200 m.kr. til óvenjulegrar hækkunar í fjármagnsliðum.

Í greinargerð sem send var samhliða tilkynningunni kemur meðal annars fram: „Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta er neikvæð um 578,5 millj.kr. sem er 396 millj.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur eru 11.090 millj.kr. og heildarútgjöld með afskriftum en án fjármagnsliða 10.744 millj.kr. Að öllu samanlögðu nema heildarútgjöld með afskriftum án fjármagnsliða 96,8 % af heildartekjum A- og B-hluta ársreiknings.“

Þá segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu að án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu Svf. Árborgar upp á um 100 milljónir króna. „Niðurstaða ársreiknings 2020 getur talist ásættanleg í ljósi þess heimsfaraldurs sem einkenndi liðið ár, sér í lagi þegar við bætist gríðarlegrar fjölgun íbúa og tilheyrandi uppbyggingarferli á innviðum og fjölskylduþjónustu.“

„Markmið Svf. Árborgar í viðbrögðum við Covid-19 heimsfaraldrinum hefur verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á gríðarlegan niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Sveitarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna. Sveitarfélagið Árborg hefur tekist á við félagsþjónustuverkefni Covid-19 af sérstökum krafti og starfar m.a. mjög náið með ráðuneytum að framfaraverkefnum á þessu sviði.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur af framangreindum ástæðum leitt til hallaaukningar í ársreikningi upp á hartnær hálfan milljarð. Fjármagnsliðir hækka því til viðbótar verulega, vegna aukinnar verðbólgu og 10% árshækkunar launa, svo nemur 400 milljónum. Önnur sveitarfélög glímdu við sama verkefni og sést það víða með skýrum hætti í ársreikningum þeirra,“ segir ennfremur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Hægt er að kynna sér eftirfarandi gögn um málið:

Greinargerð með ársreikningi 2020

Fréttatilkynning Árborg – ársreikningur 2020

Nýjar fréttir