Við sem elskum landbúnað viljum öll sjá það sama:
- Bætta afkomu bænda
- Bætt rekstrarumhverfi landbúnaðar
- Fleiri tækifæri til matvælaframleiðslu
- Aukna nýsköpun í landbúnaði
- Betri nýtingu hliðarafurða
- Aukna fagmennsku til að byggja upp jákvæða ímynd
En okkur greinir eins og er um leiðir að settu marki.
Ég hef verið með sterkar skoðanir á samfélagsmálum allt frá því ég var unglingur. Áður en ég gekk til liðs við Viðreisn þá hafði ég áður verið virkur í starfi stjórnmálaflokks sem sagðist vera mikill landbúnaðarflokkur. Eftir að hafa kynnst starfinu þar kom í ljós að það voru fortíðarást og forræðishyggja sem réðu þar för.
Ást er að mínu mati sú tilfinning að vilja sjá hlutina sem maður elskar vaxa og dafna. Hvort sem það snýr að börnunum okkar, okkur persónulega eða að landbúnaðinum, þá viljum við sjá það sama. Vöxt fram á veginn þar sem landbúnaðurinn vaxar og verður fjölbreyttari með hverju árinu sem líður.
Sýn Viðreisnar heillaði mig frá byrjun og verandi bæði búfræðingur frá LBHÍ og nú matvælafræðingur frá Háskóla Íslands þá leyfi ég mér að fullyrða að framtíðarsýn Viðreisnar stuðlar að öflugum landbúnaði ásamt byggðafestu á landsbyggðunum.
Viðreisn hefur sýnt í verki að flokkurinn er fyrstur til að aðstoða bændur, samanber þegar verð á dilkakjöti hrundi árið 2017. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem þá var landbúnaðarráðherra kom fram með 650 milljóna króna björgunarpakka sem þáverandi fjármálaráðherra , Benedikt Jóhannesson, samþykkti án þess að hika. Með þessari aðgerð sýndu þau í verki hve mikilvægt það er Viðreisn að það sé öflug byggð og landbúnaður í landinu.
Það er brýn þörf á breytingum í landbúnaði. Lægsta afurðastöðvaverð í Evrópu til bænda og strangar takmarkanir á framleiðslu smáframleiðenda til neytenda þurfa ekki að vera komin til að vera. Það þarf kjark til að breyta þessu og þor til að rugga bátnum en báðir þessir eiginleikar eru Viðreisn eðlislægir.
Núverandi kerfi hefur og er að skila íslenskum bændum hagræðingu, á formi færri bænda. Afkoma bænda er aftur á móti ekki að batna. Það þarf að staldra við þá stöðuog skoða hvað er að klikka íkerfinu eins og það er byggt upp núna..
Viðreisn talar fyrir virkri samkeppni á markaði bændum og neytendum til hagsbóta. Við viljumgefa bændum frelsi og tækifæri til fjölbreyttrar framleiðslu því við vitum hver gæði íslenskrar framleiðslu eru og hve mikil aðlögunarhæfni bænda er. Ein leið til þess er að draga úr framleiðslutengdri niðurgreiðslu og beina henni frekar yfir í jarðræktarstuðning, tengja við dreifbýlisstuðning og styrkja nýsköpun og vöruþróun í matvælaiðnaði.
Ég býð mig fram fyrir Viðreisn því ég vil sjá sterkari og fjölbreyttari landsbyggðir og breytingar í landbúnaði fyrir komandi kynslóðir þar sem almannahagsmunir munu ráða för.
Axel Sigurðsson
Höfundur er búfræðingur, matvælafræðingur og
í 5. sæti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.