-8.1 C
Selfoss

„Það er einmitt þessi fjöldi aldamótahúsa sem hefur varðveist sem gerir þorpið sérstakt“

Vinsælar fréttir

Bæjarstjórn sveitarfélagsins Árborgar hefur látið meta hvort lög nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð eigi við um elsta hluta þorpsins á Eyrarbakka. Frumkvæði að þessari athugun kom frá íbúum á Eyrarbakka, sem á undanförnum áratugum hafa unnið ötullega að vitundarvakningu um mikilvægi þess að vernda aldamótabyggðina. Þar fremst í flokki eru Magnús Karel Hannesson og Inga Lára Baldvinsdóttir. Nú liggur fyrir tillaga að verndarsvæði, sem er um 28 ha að stærð og nær yfir elsta hluta Eyrarbakka þar sem flest hin svokölluðu aldamótahús standa og voru byggð út frá jörðunum Skúmsstöðum og Háeyri.

Fjölsóttur íbúafundur og íbúar áhugasamir um málið

Eyrarbakki. Myndina tók Magnús Karel Hannesson.

Íbúafundur sem haldinn var á Eyrarbakka 14. júní sl.  þar sem verkefnið var kynnt var einstaklega vel sóttur en 60 manns sóttu fundinn. Ljóst var að mikil ánægja var meðal fundarmanna með framtakið. Samstaða var á fundinum um að málinu yrði framhaldið. „Þetta er sennilega fjölmennasti íbúafundur sem haldinn hefur verið um langt skeið á Eyrarbakka. Kynningin var afar góð og Svanhildur Gunnlaugsdóttir hjá Landform fór einstaklega vel yfir þetta,“ segir Guðmundur Ármann íbúi á Eyrarbakka í samtali við Dagskrána. Í máli Guðmundar kemur einnig fram að þetta væri eitt stærsta og verndar og framfaraskref sem stigið hafi verið í þorpinu í langan tíma. „Það er búið að ramma þarna inn byggðina á bakkanum og sýna henni þann sóma sem hún á skilið. Þarna munu spretta fram fjölmörg tækifæri fyrir byggðina til að vaxa og dafna, bæði með tækifærum í ferðaþjónustu og annarri atvinnuuppbyggingu,“ segir Guðmundur. Nú fer málið til afgreiðslu í bæjarstjórn og svo þaðan til afgreiðslu hjá menntamálaráðherra sem tekur endanlega ákvörðun.

Þorpið fær viðurkenningu á sérstöðu sinni

Eyrarbakkakirkja. Magnús Karel Hannesson tók myndina.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir Eyrarbakka að þessi eldri hluti verði verndarsvæði í byggð? „Að elsti hluti þorpsins fái stöðu verndarsvæðis í byggð getur orðið lyftistöng fyrir samfélagið og einnig felst í því viðurkenning á sérstöðu þorpsins og því góða starfi sem einstaklingar hafa innt af hendi við varðveislu byggðarinnar. Það getur orðið einstaklingum enn meiri hvatning og einnig sveitarfélaginu í heild, en það er mikilvægt að ráðamenn innan þess beini sjónum sínum að því hversu mikilvægt það er að bæta úr viðhaldi gatna, stíga og umhverfisins alls innan svæðisins,“ segir Svanhildur Gunnlaugsdóttir í samtali við Dagskrána.

Nú hljóta húsin innan svæðisins að vera mis merkileg til varðveislu. Hvað er það nákvæmlega sem verið er að vernda og hvers vegna er mikilvægt að vernda götumyndir og byggðarsögu með þessum hætti? „Innan svæðisins eru um 155 hús og 88 af þeim eru byggð fyrir 1925 og falla því undir lög um menningarminjar. Þrjú þessara húsa, Húsið, Assistentahúsið og Eyrarbakkakirkja eru friðlýst. Hús sem náð hafa 100 ára aldri eruð friðuð skv. lögum. Það er einmitt þessi fjöldi aldamótahúsa sem varðveist hefur sem gerir þorpið sérstakt, en innan verndarsvæðisins er að finna eina heillegustu, samfelldu byggð alþýðuhúsa frá því um og eftir aldamótin 1900 sem varðveist hefur á Íslandi. Auk húsanna eru ýmsar minjar eins og gömlu sjóvarnargarðarnir, hlaðnir garðar umhverfis kartöflugarða, tóftir,  brunnar o.fl. sem ber að varðveita. Mikilvæg menningarleg verðmæti hafa glatast, s.s. Vesturbúðin, en nánast öll verslunarhús frá blómaskeiði Eyrarbakka sem verslunarstaðar, eru horfin. Mörg aldamótahúsanna eru látlaus og smágerð, en það er samspil þeirra, byggðamynstrið og sagan sem verið er að vernda með því að skilgreina svæðið sem verndarsvæði í byggð. Byggingarform aldamótahúsanna er fjölbreytt, allt frá litlum þurrabúðarhúsum yfir í reisuleg sveitserhús og timburklassík,“ segir Svanhildur.

Hefur tækifæri í för með sér fyrir þorpið

Eyrarbakki. Myndina tók Magnús Karel Hannesson.

Hvernig getur þetta nýst til uppbyggingar og tækifæra fyrir þorpið með tilliti til ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingar? Að fá viðurkenningu á því að svæðið sé verndarsvæði vegna upprunaleika, merkilegrar sögu og sérstaks svipmóts byggðar getur haft ýmis tækifæri í för með sér, bæði þegar kemur að markaðssetningu þjónustu og vöru innan þorpsins, en einnig þegar kemur að því að sækja styrki til þess að fjármagna uppbyggingu. Saga þorpsins sem mikilvægasta verslunarstaðar á Suðurlandi allt fram til um 1920 er merkileg í sjálfu sér og enn merkilegra er að geta gengið sömu götur og séð sömu húsin og bændurnir sem komu í verslunarleiðangur fyrir hundrað árum síðan.

Íbúar fá aukin tækifæri til umbótastarfs á húsunum

Eyrarbakki. Myndina tók Magnús Karel Hannesson.

Nú hafa íbúar verið duglegir margir hverjir að halda við húsum sínum, sumpart með stuðningi frá Húsfriðunarsjóði. Styður verkefnið við frekara viðhald og uppbyggingu? Þegar lög um verndarsvæði í byggð voru samþykkt árið 2015, fylgdu loforð um aukið fjármagn í sjóði sem hægt yrði að sækja um í. Þegar tiltekið hús er innan verndarsvæðis í byggð má telja víst að möguleikar á styrkjum til viðhalds á friðuðum húsum aukist. Húseigendur hafa sýnt það á undanförnum áratugum að þeir eru þess meðvitaðir hversu mikilvægt það er að vanda til þess þegar gömul hús eru gerð upp. Sú staðreynd hversu mörg hús hafa verið færð í upprunalegt horf hefur haft áhrif á umsókn um verndarsvæðið. Aðspurð um hvort verkefnið muni hafa áhrif á bæjarmyndina til lengri tíma segir Svanhildur: „Tvímælalaust. Aukin áhersla verður lögð á umhverfið og að skapa þessum húsum verðuga umgjörð með viðeigandi umhverfismótun. Áherslan á varðveislu og fegrun mun smita út frá sér og hafa áhrif á allt þorpið og hugmyndir fólks um þróun þess til framtíðar.“ -gpp

Dagskráin þakkar Magnúsi Karel fyrir að ljá fréttinni myndir úr safni sínu.

 

Nýjar fréttir