2.8 C
Selfoss

Þór Þorlákshöfn Íslandsmeistarar 2021

Vinsælar fréttir

Þór Þorlákshöfn tryggðu sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í sögu félagsins í gærkvöldi. Þeir lögðu Keflavík 81-66 í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos-deildinni, og unnu þar með einvígið 3-1. Leikurinn einkenndist, líkt og fyrri leikir liðanna, af mikilli hörku og er hægt að fullyrða að leikmenn skildu allt eftir á vellinum.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn sterkari og virtust staðráðnir í að knýja fram oddaleik á sunnudaginn. En Þórsarar voru aldrei langt undan og náðu í miðjum 2. leikhluta að jafna stöðuna. Í seinni hálfleik voru Þórsarar alltaf skrefi á undan Keflvíkingum og náðu þeir svo endanlega að slíta þá frá sér um miðjan 4. leikhluta. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að komast aftur inn í leikinn en heimamenn héldu sínu striki. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka var ljóst að Keflvíkingar myndu ekki ná að koma í veg fyrir góðan sigur Þórsara. Mikil fagnaðarlæti brutust út í Icelandic Glacial-höllinni þegar tíminn rann út og fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í körfubolta staðreynd.

Atkvæðamestur í liði Þórsara, ásamt því að vera valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar, var Adomas Drungilas, en hann skoraði 24 stig í leiknum og tók 11 fráköst. Larry Thomas átti einnig stórleik og skilaði þrefaldri tvennu með 11 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar. Aðrir atkvæðamiklir í liði Íslandsmeistaranna voru Styrmir Snær Þrastarson, með 17 stig, og Davíð Arnar Ágústsson, með 15 stig (allt 3ja stiga körfur).

Til hamingju Þór Þorlákshöfn og allir Þorlákshafnarbúar!

Nánar verður fjallað um Íslandsmeistaratitilinn í næstu Dagskrá.

Nýjar fréttir