Dyrnar á versluninni Lindex voru opnaðar í hádeginu í dag, en nokkur fjöldi var í búðinni að skoða glæsilegt úrvalið í versluninni. Við ræddum við Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur og Albert Þór Magnússon, eigendur verslunarinnar af tilefninu.
Verslunin tilbúin og ekki eftir neinu að bíða
Aðspurður um að drífa opnunina af stað í dag segir Albert; „Það var eiginlega ekki annað hægt. Hún var alveg tilbúin, á undan áætlun og við auðvitað gátum ekki annað en að setja í gang. Líka í ljósi aðstæðna í samfélaginu þá fannst það okkar skylda að hjálpa til við að dreifa álaginu eins og hægt er. Þannig að við töldum sterkan leik að opna í dag í hádeginu og fagna með því verslunarmannahelginni og þeim stríða straum af fólki sem að hyggst nýta sólina á Suðurlandi, um helgina.“
Urðu að opna verslun á Selfossi
Verslunin var vel hlaðin af fólki þegar blaðamaður mætti rétt eftir opnun. „Já, verslunin er smekkfull og við opnum við óvenjulegar aðstæður. Við auðvitað byrjum þennan feril á Selfossi í bílskúrnum fyrir um ellefu árum síðan. Það er sagt að hver vegur að heiman sé vegurinn heim. Við erum auðvitað með verslanir víða um höfuborgarsvæðið og í öllum fjórum landshornum. Og þetta var lokaátakið og varð að klárast segja, Lóa og Albert hlæjandi. „Okkur fannst tilhlýðilegt að fagna á þessari helgi og það eru miklar og blendnar tilfinningar í gangi,“ segir Albert.
Lóa segir að staðið hafi til að opna með pompi og prakt. Halda dálítið partý en í ljósi aðstæðnanna hafi þau ákveðið að opna með svokallaðri „soft opening“ þannig að álagið dreifðist sem best.