Skerðingar TR til eldri borgara nemur 35 milljörðum á ári

Samkvæmt svari ráðherra við fyrirspurn á alþingi var meðalupphæð ellilífeyris og heimilisuppbótar árið 2017 kr. 241.250 á mánuði frá TR.  Greiðslur það ár, án skerðinga hefðu kostað ríkissjóð 101,9 milljarða, en ríkissjóður greiddi út 66,9 milljarða í ellilífeyri og heimilisuppbót. Skerðingarnar spöruðu ríkissjóði því um 35 milljarða  það ár. Þar af spöruðu skerðingarnar vegna lífeyrissjóðsgreiðslnanna líklega um 70% af þeirri upphæð eða um 24 milljarða.

Loforð flokka í ríkisstjórnum undanfarin 12 ár um bættan hag, hafa reynst  markleysa. Kjör þeirra sem minnst hafa, eru skert mest. Markvisst er komið í veg fyrir að lífskjör hækki í samanburði við laun og lífsgæði annarra í landinu með skerðingu greiðslna frá TR á móti lífeyrisgreiðslum og fjármagnstekjum.

Skerðingar til viðbótar:

1) Hækkun á greiðslum TR til ellilífeyrisþegar  í ársbyrjun hefur árlega verið skert mörg undanfarin ár miðað við verðlag tveggja ára á undan. Grunnlífeyrir hækkaði 1. janúar 2021 um 6,1% í  kr. 266.033 á mánuði. Hækkunin var skilgreind 3,6%, miðað við óskiljanlegan útreikning hækkunar, líklega frá 2019, að viðbættri 2,5% hækkun, sem sambærilegir hópar fengu að lágmarki, vegna sömu hækkana á föstum aukatekjum ríkisjóðs og sveitarfélaga 2021. Skattleysismörkin voru lækkuð  um kr. 3.836.- á mánuði, eins og reyndar var einnig gert 2020, í bæði skiptin án umfjöllunar, sem bitnar mest á þeim sem minnst fá. Hækkun TR 1. janúar 2021 reyndist vera um kr. 10.000 á mánuði, sem eftir skattlagningu og með lækkuðum persónuafslætti skilja eftir af greiðslu TR,  kr. 198.986, en hjá einstæðingum með heimilisuppbót kr. 245.270.

2) Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) skerðast um 45% á móti lífeyrissjóðsgreiðslum umfram kr 25.000 á mánuði og vinnulaunum umfram kr. 100.000 á mánuði. Til viðbótar þeirri skerðingu á greiðslum frá TR, reiknast tekjuskattur á lífeyrisgreiðslurnar og vinnulaunin, þannig að skerðingin og skatturinn af greiðslum umfram frítekjumarkið geta numið allt að 81,9%..

3) Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara eru skattlagðar sem almennar tekjur frá 31,45% að 45%,  þótt hluti af því fé, sem sjóðfélaginn á í viðkomandi lífeyrissjóði, hafi áður verið skattlagður frá 1996 til 1988 og annar hluti hafi orðið til vegna vaxta og annarra hækkana fjármagns og ætti því að vera að hluta án skatts og að hluta  með 22 % fjármagnstekjuskatti, reiknað út á hvern einstakling.

4) Ofangreindar viðmiðanir um skerðingar hafa verið óbreyttar í fjögur ár.  Þegar allt annað hækkar í gjöldum og launum eftir vísitölum og verðbólgu, þá ættu viðmiðunarfjárhæðir vegna frítekjumarks að hækka árlega miðað við það. Þessar óbreyttu skerðingar á greiðslum frá TR eru því ekkert annað en lækkun á greiðslustöðu þessa fólks sem minnst fær.

5) Hún er ákvörðun um að skerða með sama hætti og að ofan greinir desemberuppbót og sumarorlof, sem TR greiðir til eldri borgara. Upphaflega var samið um að allir fengju þetta sem uppbót á laun, tryggingargreiðslur og bætur. Hverjum skyldi hafa dottið í hug við þá samninga, að skerðingarnar sem settar voru á þessar bætur árið 2008 yrði viðhaldið þannig árlega síðan?

Halldór Gunnarsson, formaður kjararáðs félags eldri borgara í Rangárvallasýslu