10 C
Selfoss

Eldsvoði í Haukadalsskógi – óskað eftir vitnum

Vinsælar fréttir

Síðastliðinn fimmtudag varð eldsvoði í Haukadal þegar bálskýli þar brann til kaldra kola. Skýlið sem var reist árið 2017 var stórt og stæðilegt og stóð inn í Hákonarlundi í Haukadalsskógi. Skýlið gjöreyðilagðist líkt og meðfylgjandi myndir sína. Talið er að atvikið hafi orðið síðastliðið fimmtudagskvöld. Engin tilkynning um brunann barst og urðu starfsmenn Skógræktarinnar varir um brunann þegar þeir voru í eftirliti um svæðið daginn eftir. Þá var enn glóð í stólpum skýlisins.

Enginn gefið sig fram vegna brunans

Enginn hefur gefið sig fram varðandi málið en lögreglunni á Selfossi var tilkynnt um brunann strax þegar starfsmenn Skógræktarinnar urðu varir við tjónið. Fyrst og fremst erum við þakklát fyrir ekki hafi orðið slys á fólki við svona stóran bruna en um talsvert tjón er um að ræða og kostnaðurinn við byggingu svona skýlis hleypur á milljónum. Mikil mildi er að eldurinn hafi ekki dreifst víðar en veður var hagstætt, raki í jörðu og vindur hægur.

„Skýlið stendur út í miðjum skógi og hæglega hefði eldur getað læst sér í gróðurinn og valdið gríðarlegu tjóni. Ljóst er að eldhafið hefur verið gríðarlegt en skýlið var yfir 5 metra hátt og byggt úr stórvið úr skóginum. Eldsúlan hefur þá væntanlega verið há og mikil. Skýlið hefur verið afar vinsæll viðkomustaður heimamanna úr sveitinni og ferðamanna innlendra sem erlendra og því mikill missir af því og óvíst á þessari stundu hvort það verði endurbyggt enda engar tryggingar sem ná yfir svona mannvirki,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður hjá Skógræktinni.

Allar ábendingar um málið má senda á trausti@skogur.is

 

Skýið var nærri fimm metra hátt og mikill eldsmatur í því.
Skýlið brann til kaldra kola.

Nýjar fréttir