Til stendur að setja á fót Slysavarnadeildina Sigurbjörgu í Þorlákshöfn. það eru þau Dagný Runólfsdóttir, María Ósk Jónasdóttir og Arek Kujoth. Deildin mun verða stuðningur við Björgunarsveitina Mannbjörgu en markmið félagsins eru meðal annars að halda fjáraflanir fyrir björgunarsveitina. Við ræddum við forsprakka verkefnisins um málið, en María, eiginkona Þorsteins, formanns björgunarsveitarinnar Mannbjargar hafði haft hugmyndina lengi í kollinum.
Sjómannadagskaffið kom okkur endanlega af stað
„Ég hafði verið búin að hugsa þetta í nokkur ár. Það er svo ekki fyrr en það kemur þessi drífandi unga kona, hún Dagný, sem var í Björgunarsveitinni Ársæl í Reykjavík að ég lét slag standa. Við ákváðum í sameiningu að drífa verkefnið af og höfum auðvitað fengið frábæran stuðning frá Mannbjörgu og honum Arek,“ segir María. Allt ævintýrið byrjaði með sjómannadagskaffi sem haldið var í ár og nú er verkefnið að komast formlega á legg.
Fyrst og síðast stuðningur við Mannbjörgu
Þegar Dagskráin ræddi við Maríu, Dagnýju og Arek kom fram að til stæði að halda stofnfund og þau vonuðust eftir að sjá mörg andlit á fundinum. Það þyrfti þó að koma fram að fólk gæti ávallt gengið í félagið. „Já, ég vonast til þess að þetta verði öflugur hópur en markmiðin eru að sinna slysavörnum, halda fjáraflanir og fleira. Allt til stuðnings Björgunarsveitinni Mannbjörgu. Þeir sinna mörgum og mikilvægum verkefnum á hverju ári og við viljum styðja þá og gera þeim lífið einfaldara. Ég hvet svo flesta til að taka þátt því það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi innan okkar banda. Við erum að leita af öllum frá 16 ára aldri. Nú er bara að skrá sig!