3.4 C
Selfoss

Öryggis og umferðarmál í sveitarfélaginu Árborg

Vinsælar fréttir

Sú var tíðin að hér voru nefndir eins og umferðarnefnd, atvinnumálanefnd og áfengisvarnarnefnd svo dæmi séu tekin. Tímar breytast og nefndir eru lagðar niður og aðrar sameinaðar öðrum nefndum, sumt til góðs og annað ekki eins og gengur. Í síðustu viku var tekin fyrir tillaga frá mér í bæjarráði Árborgar um „stofnun starfshóps til þess að yfirfara gatnamerkingar og öryggisatriði á umferðargötum sveitarfélagsins Árborgar og koma með tillögur til úrbóta“ eins og ég orðaði það, samfélagi okkar til heilla. Í vaxandi sveitarfélagi er nauðsynlegt að vera á tánum varðandi öryggismál í heild sinni vegna gangandi, hjólandi og hlaupandi vegfarenda, skipulag og umgjörð hesta og manna og núna þess nýjasta rafhjólanna sem og skipulag bílaumferðar. Ég hitti mikið af fólki og fæ margar ábendingar um skipulag þessara mála bæði þess sem vel er gert og einnig það sem mætti bæta til að auka öryggi. Starfshópur þessi gæti unnið með íbúunum, hverfisráðunum okkar og fleirum til þess að finna út hvað mætti bæta og gera betur og vinna hratt. Við mig hefur verið nefnt og ég skoðað sjálfur fyrirkomulag gangbrauta við Austurveg á Selfossi til móts við Fossnesti (KFC) eins og við eldri íbúar köllum svæðið, íbúar á Langanesi eða handan ár á Selfossi þar sem umferð hefur aukist mjög vegna útivistarperlunnar okkar í Hellisskógi og einnig hraðakstur í gegnum hverfið. Við Engjaveg á móts við Sigtún er mikil gangandi umferð úr Haga, Engja, Rima og nýrri hverfunum yfir Engjaveg um Sigtún áleiðis í Sigtúnsgarð og miðbæinn og má þar litlu muna að ekki hafi orðið stórslys og er brýnt að fá þar gangbraut, víða er óskað hraðahindrana til að draga úr umferðarhraða og bæta merkingar. Svona mætti lengi telja og slíkur starfshópur myndi taka utan um þetta verkefni og koma með tillögur til úrbóta. Öryggi gangandi vegfarenda eins og við grunnskólana í öllu sveitarfélaginu, í og við stoppistöðvar strætó og fleira er vert að skoða. Ég á sæti sem bæjarfulltrúi í hverfisráði Sandvíkurhrepps sem áheyrnarfulltrúi og hefur þar komið til tals öryggismál í tengslum við vegfarendur og umferð. Með öryggismál í öndvegi gerðum við samning árið 2016 við Vegagerðina um göngu og hjólastíg milli Eyrabakka og Selfoss og er það verkefni komið talsvert á veg, Fjörustíg milli Stokkseyrar og Eyrarbakka og gerð hans hófum við um 2012 er hann kominn í gott stand, mikilvægt er að tryggja gott og öruggt göngu og hjólastígakerfi í Sveitarfélaginu í þeirri útivistar og hreyfingabylgju sem ríkir. Á Selfossi hefur á liðnum árum verið byggt upp gott göngustígakerfi og hægt og bítandi hafa verið endurbættir stígarnir í eldri hverfum. Skipulag umferðar í og við Austurveg á svo eftir að breytast þegar ný brú kemur við Laugardælur og verður þá gott tækifæri til þess að endurskipuleggja gangandi,hjóla og bílaumferð í heild sinni með öryggi að leiðarljósi. Tillögu minni var vísað til umfjöllunar í eigna og veitunefnd og vonandi fáum við vitræna og góða niðurstöðu í málið íbúunum til hagsbóta sem allra fyrst.

Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi D-lista í Sveitarfélaginu Árborg.

Nýjar fréttir