-4.2 C
Selfoss

Bændur gæta landsins

Vinsælar fréttir

Það er gaman að eiga náttúruperlur en það er ekki auðvelt þegar þær eru í alfaraleið.  Þannig háttar til með Fagrafoss sem er í Geirlandsá, rétt við veginn upp að Laka. Flestir þeir sem gera sér ferð upp í Laka skoða fossinn, sem ber nafn með rentu. Við fossinn er góður útsýnispallur sem kostaður var af Kötlu jarðvangi og styrk frá Landsbankanum. RR tréverk smíðaði pallinn og Valmundur Guðmundson í Eystra-Hrauni handriðið en Kári Kristjánson, landvörður, kom með hugmyndir að útliti pallsins. En það var eftir að leggja góðan stíg að pallinum. Það var dapurlegt að sjá landið vaðast út, gróið land verða að drullusvaði vegna þess hve margir fóru að fossinum.

Það eru til lausnir og fjármagn en það þarf að hafa fyrir því að sækja í sjóði til að byggja upp. Þetta vita bændurnir og landeigendurnir í Mörtungu á Síðu en útsýnisstaðurinn að Fagrafossi er í Mörtungulandi. Þær Jóna Björk Jónsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir og gengu fram fyrir skjöldu til bjargar umhverfinu. Þær sóttu um styrki til að gera pallinn og nú síðast sóttu þær um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til að bæta og afmarka bílastæði og leggja göngustíg úr möl frá bílastæðinu að útsýnispallinum. Það þurfti að færa stíginn fjær gljúfrinu og lagfæra gróðurskemmdir. Mikil áhersla var lögð á að stígurinn væri fær hreyfihömluðum.

Þegar styrkurinn var kominn í hús var næsta verkefnið að semja við verktaka um að vinna verkið. Það var Helgi Kjartansson á Fossi á Síðu sem tók að sér verkið. Helgi mætti með tæki og tól haustið 2019, vann verkið  fljótt og vel og Valmundur Guðmundsson smíðaði nýtt hlið á stíginn. Þegar farið er að Fagrafossi í dag eru allar skemmdir að gróa upp og breiður og aðgengilegur stígurinn lítur út eins og hann hafi alltaf verið þarna.

Lilja Magnúsdóttir.

 

Nýjar fréttir