Nú í sumar hefur fleiri bílförmum af malbiki verið ekið frá Selfossi í gryfju rétt austan við hesthúsin á Stokkseyri. Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður fékk frá Umhverfisstofnun er gamalt malbik úrgangur sem þarf að fara með á viðurkennda móttökustaði fyrir úrgang og væri því þessi ráðstöfun með öllu óheimil. Umhverfisstofnun hafði samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vegna ábendingar minnar þar sem söfnunarstöðvar úrgangs eru starfsleyfisskyldar hjá þeim. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er því með málið til skoðunar í dag.
Mánudaginn 17. ágúst var komið með jarðýtu á svæðið við Stokkseyri og malbikið jafnað út og dreyft yfir ca 2000 fermetra. Varla var því verki lokið þegar fleiri malbikshlöss bárust á svæðið.
Í grein í fréttablaðinu þann 18. ágúst segir Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, að um leið mistök sé að ræða og malbiksúrgangurinn verði fjarlægður. Það er ánægjulegt til þess að vita að bæjarstjóri ætli að sjá til þess að malbikið verði fjarlægt en að sama skapi er það leitt fyrir okkur íbúa Árborgar að þurfa nú að sjá fram á margfalt kostnaðarsamari aðgerðir en annars hefði þurft að vera. Betra hefði verið að nýta það fé í skynsamlegar framkvæmdir, jafnvel á Stokkseyri.
Á því svæði sem malbikinu hefur verið komið fyrir er ótrúlega fjölbreitt fuglalíf og þar ganga um hestar, kindur og ekki er langt í kýrnar. Vatn er ein allra verðmætasta auðlind jarðarinnar. Spillum ekki þessari auðlind, hvorki fyrir okkur mannfólkinu né dýrunum með sóðaskap sem þessum sem hér hefur átt sér stað. Í umhverfisstefnu Sveitarfélagsins Árborgar má lesa ýmislegt sem á engan hátt samræmist því sem hér hefur verið framkvæmt.
Nú er það von mín að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands taki á þessu máli, sjái til þess að malbikið verði fjarlægt því hér er um klárt lögbrot að ræða.
Björgvin Tómasson, íbúi á Stokkseyri.