-6.7 C
Selfoss

Sunnulækjarskóli gefur jól í skókassa

Vinsælar fréttir

Verkefnið jól í skókassa er árlegt verkefni á vegum KFUM og KFUK. Að venju tóku nemendur í Sunnulækjarskóla þátt í verkefninu. Við heyrðum hljóðið í krökkunum og kennara þeirra Selmu Harðardóttur spurðum út í verkefnið.

Hjálpumst að við að setja í kassana

Í skókassana fer allskyns varningur sem ætlaður er börnum. Það er sérstakur listi sem farið er eftir til þess að gæta jafnræðis. Allir kassar eiga þó það sammerkt að innihalda skóladót eins og blýanta og liti, snyrtivörur t.d tannkrem, tannbursta og sápustykki. „Við setjum einnig smávegis af sælgæti, fötum eða dóti sem við töldum henta hverjum aldri. Þá merkjum við kassana eftir því hvoru kyninu eða aldri þeir henta,“ segir Selma. Selma segir jafnframt að söfnunin hafi gengið afar vel. „Allir sem vildu og gátu hjálpuðust að við að koma með eitthvað í kassana. Við vorum með safnkassa hér í skólanum og söfnuðum í þá. Þegar þeir voru fullir var farið í að raða í hvern skókassa fyrir sig. Það var dálítil áskorun að finna svona marga skókassa en það gekk vel að lokum t.d. með hjálp skóverslana á svæðinu,“ segir Selma og brosir.

Hugsi yfir aðbúnaði barna í fátækari löndum

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil fátækt. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt. Við ræddum við krakkana og spurðum þau út í kassana og verkefnið. „Okkur þykir þetta skemmtilegt verkefni. Það gefur okkur mikið að geta glatt aðra,“ sögðu börnin. Selma bætir við að þau hafi verið hugsi yfir því hvernig aðbúnaður og ástand barna í fátækari löndum væri. Þau hefðu jafnframt spurt hvort börn á Íslandi hefðu þörf fyrir hjálp eins og þessa. Hvað lærðuð þið á þessu verkefni, spyr ég börnin. „Við lærum að taka lífinu og öryggi ekki sem sjálfsögðum hlut. Það er sælla að gefa en þiggja. Við erum líka viss um að hér á Íslandi séu börn sem hægt er að gleðja. Þess vegna ætlum við að gefa það sem eftir er af hlutum til barna á Íslandi sem þurfa á því að halda.“

Söfnunin framar björtustu vonum

Kassarnir hafa verið afhentir í Selfosskirkju sem hafði milligöngu með að koma þeim áfram. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Selfosskirkju sagði í samtali við blaðið að söfnunin hefði farið fram úr björtustu vonum. „Við vorum alls ekki viss með þátttökuna í ljósi Covid-19. Við vorum því aldeilis hissa þegar að krakkarnir komu færandi hendi. Söfnunin fór fram úr okkar björtustu vonum. Gjafirnar eru allar komnar í gám og hann tilbúinn til brottfarar. Alls söfnuðust á landsvísu um 4382 gjafir.“ Krakkarnir ætla svo að fylgjast með á vefsíðu KFUM og KFUK þar sem gjarna birtast myndbönd frá því þegar gjöfunum er dreift.

 

Nýjar fréttir