-7.3 C
Selfoss

Ísland meðal efstu ríkja í stafrænni opinberri þjónustu

Vinsælar fréttir

Ísland er í hópi fremstu ríkja heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu. Þetta er niðurstaðan í nýútgefnum mælikvarða Sameinuðu þjóðanna (SÞ), þar sem Ísland er í 12. sæti af 193 löndum og færist upp um sjö sæti frá síðustu mælingu, en mælikvarðinn er gefinn út á tveggja ára fresti.

Við matið horfa Sameinuðu þjóðirnar til fjögurra þátta – framboðs og gæða stafrænnar opinberrar þjónustu, stöðu tæknilegra innviða, mannauðs og netvirkni en einkunn Íslands hækkar milli mælinga í öllum þáttunum.

Ísland er í hópi fjórtán ríkja sem SÞ telur í fararbroddi í stafrænni opinberri þjónustu. Norður- og Eystrasaltslöndin skipa sér ofarlega á lista SÞ og eru Danir í fyrsta sæti, Eistar í því þriðja, Finnar í fjórða og Svíar í sjötta sæti. Norðmenn koma á hæla Íslendingum í 13. sæti.

Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og í fyrra var samþykkt aðgerðaáætlun sem leggur grunn að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Stafrænt Ísland, eining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, vinnur markvisst að þessu með það að leiðarljósi að gera samskipti við opinbera aðila snurðulaus og þægileg.

 

Nýjar fréttir